„Þessum fyrirspurnum hefur farið fjölgandi. Þetta er eitthvað sem við kannski vorum ekki að spá í fyrir, en erum að leggja áherslu á núna. Við erum búin að fjárfesta í græjum sem gera okkur kleift að gera allt vegan,“ segir Árni Theódór Long, bruggmeistari hjá Ölgerðinni. Nýlega festi Ölgerðin kaup á skilvindu sem gerir þeim kleift að sleppa því að nota dýraafurðina gelatín. „Við erum ekki lengur að fella út bjórinn með efnum eins og gelatíni, í staðinn erum við komin með skilvindu sem getur fjarlægt það sem þarf, án þess að bæta við þessum efnum. Vélin er núna búin að vera í notkun í einhvern tíma. Við erum búin að vera í þessum fasa í að minnsta kosti hálft ár,“ segir Árni Theódór.

Súkkulaði er annað sem Íslendingar borða mikið af um jólin. Samkvæmt Nóa Síríusi er jólakonfektið alltaf gríðarlega vinsæl vara hjá þeim, en ekkert af jólakonfektinu er þó án dýraafurða. „Það er ekki í boði í ár, en þetta er í skoðun. Þetta er ört stækkandi markaður og við finnum það á fyrirspurnum. Við finnum sérstaklega fyrir því fyrir þessi jól. Við erum með einstaka vegan hátíðarvörur eins og dökkt pralínsúkkulaði. Við höfum fengið fyrirspurn um hvort ekki sé hægt að hafa það í boði allt árið. Þetta er allt í skoðun. Við erum að þróa rosalega mikið og skoðum þá strauma og stefnur og við höfum klárlega orðið vör við aukinn áhuga á þessu, sérstaklega síðasta eina og hálfa árið,“ segir Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Markaðs- og sölusviðs Nóa Síríusar.
Laufabrauð er einnig vinsælt á jólahlaðborðum Íslendinga, en það inniheldur mjólkurduft og hentar því ekki grænkerum. „Við erum að vinna með hefðbundnar uppskriftir og myndum aldrei breyta þeim í vegan, en það væri hægt að gera einhverja nýja svipaða vöru. Það væri gaman að gera einhverja prufuþróun og athuga hvort það er hægt að gera eitthvað sniðugt. Þetta er viss áskorun, en ég hef alltaf gaman af því,“ segir Pétur S. Pétursson, framleiðslustjóri hjá Ömmubakstri.
Grænkerar (vegan) eru þau sem ekki neyta kjöts, fisks eða nokkurra annarra dýraafurða. Sigvaldi, hjá félagi grænmetisæta, segir þeim fjölga stöðugt sem vilja sleppa öllum dýraafurðum í matargerð, en segir ómögulegt að áætla um heildarfjölda á Íslandi. Hann telur að það séu tæplega fimm prósent landsmanna í heildina sem eru einhvers staðar á milli þess að vera grænkerar eða grænmetisætur. Hann sagði einnig fjölmarga vera svokallaða „flexitarians“ sem eru þá grænmetisætur sem leyfa sér stöku sinnum mjólkurvörur eða aðrar dýraafurðir.
Uppfært klukkan 14:21: Samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni hefur fyrirtækið nú fengið það staðfest að sykurinn sem um er fjallað í fréttinni er vegan.