Miller var gestur Jake Tapper í þættinum „State of the Union“ á CNN í gær. Þeim Tapper varð fljótt heitt í hamsi þegar talið barst að nýrri og umdeildri bók um Trump forseta. Í stað þess að svara reyndi Miller ítrekað að beina viðtalinu í átt að gagnrýni á CNN.
Kallaði Miller forsetann meðal annars „stjórnmálasnilling“. Trump hafði þá brugðist við umfjöllun um geðheilsu og vitsmuni með því að kalla sjálfan sig „mjög stöðugan snilling“ á Twitter. Tapper sakaði Miller um að reyna aðeins að þóknast forsetanum með svörum sínum.
Á endanum var Tapper nóg boðið af svörum Miller og batt enda á á viðtalið með orðunum: „Ég held að ég hafi þegar sóað tíma áhorfenda minna nógu mikið. Þakka þér fyrir, Stephen.“ Á meðan hélt Miller áfram að tala ofan í Tapper.
Miller vakti einnig töluverða athygli á fyrstu vikum forsetatíðar Trump þegar hann mætti í sjónvarpsviðtöl til að verja múslimabann forsetans. Þar deildi hann hart á dómstóla sem höfðu þá fellt bannið úr gildi. Fullyrti hann að andstæðingar Trump, fjölmiðlar og heimurinn allur myndu sjá Trump hefði verulegt vald sem yrði ekki dregið í efa.
Trump hefur ítrekað ráðist á CNN og sakað stöðina um að flytja „falsfréttir“ af sér þegar honum mislíkar umfjöllun um sig.