Lögmenn Donalds Trump Bandaríkjaforseta reyna nú að koma í veg fyrir útgáfu nýrrar bókar með safaríkum sögum frá upphafi forsetatíðar hans. Þeir hafa sent höfundinum og útgefanda bókarinnar bréf þar sem þeir krefjast þess að útgáfa hennar verði stöðvuð.
Bókin „Eldur og brennisteinn: Innan úr Hvíta húsi Trump“ [e. Fire and Fury: Inside the Trump White House] á að koma út á þriðjudag. Bandarískir fjölmiðlar birtu hluta úr bókinni í gær með eldfimum upplýsingum, meðal annars að Steve Bannon, fyrrverandi aðalráðgjafi Trump, teldi son forsetans og tengdason hafa framið landráð með því að funda með rússneskum lögfræðingum.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að í bréfi sem lögmenn Trump hafi skrifað Michael Wolff, höfundi bókarinnar, og útgefanda hans, krefjist þeir þess að útgáfu bókarinnar verði hætt, sem og frekari birtingu á efni hennar.
Sjá einnig:Tíu bombur úr nýrri bók um Trump
Washington Post segir að lögmennirnir séu janframt að skoða að höfða meiðyrðamál vegna bókarinnar. Í henni er meðal annars fullyrt að starfslið Trump hafi talið hann aðeins „hálflæsan“ vegna þess að hann tæki ekki við upplýsingum sem honum voru kynntar. Forsetinn taki ákvarðanir eftir eigin brjóstviti jafnvel þó að hann hafi engan skilning á málefnunum sem liggja undir.
Myndin sem dregin er upp af Trump í bókinni er almennt ekki fögur. Þar er hann meðal annars sagður borða helst á McDonald's vegna þess að hann óttist að einhver reyni að eitra fyrir honum. Lýst er hvernig Rupert Murdoch, fjölmiðlamógúllinn frægi, hafi kallað Trump „hálfvita“ eftir símtal þeirra.
Segir Trump hafa vitað af bókinni
Áður höfðu lögmenn Hvíta hússins krafist þess að Bannon hætti að tjá sig um það sem hann varð áskynja þegar hann starfaði þar. Ummæli sem höfð eru eftir honum í bók Wolff brjóti gegn samningi sem hann skrifaði undir og kveður á um þagmælsku.
Trump sjálfur sagði í gær að Bannon hefði ekki aðeins misst vinnuna þegar hann lét af störfum í Hvíta húsinu í ágúst heldur hefði hann „misst vitið“.
Wolff segir að hann hafi haft nær takmarkalausan aðgang að Hvíta húsinu fyrst eftir að Trump tók við embætti og að forsetinn hafi vitað af skrifum hans. Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir hins vegar að Trump og Wolff hafi aldrei sest niður saman sérstaklega fyrir bókarskrifin.
Bókin byggist á fleiri en tvö hundruð viðtölum yfir eins og hálfs árs tímabil við Trump, marga nánustu samstarfsmenn hans og fólk sem þeir ræddu við.
