Erlent

Líkti Trump við Stalín

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Jeff Flake.
Donald Trump og Jeff Flake. Vísir/AFP
Þingmaðurinn Jeff Flake gagnrýndi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, harðlega i dag og líkti honum við Jósef Stalín, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna. Flake, sem er Repúblikani, sagði árásir forsetans á fjölmiðla vera skammarlegar og andstyggilegar og vísaði hann til ummæla Trump varðandi „falskar fréttir“ og að fjölmiðlar væru „óvinir þjóðarinnar“.

Flake hélt ræðu í pontu öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag þar sem hann sagði að þegar Trump notist við hugtakið „falskar fréttir“ ættu grunsemdir að beinast að honum sjálfum en ekki fjölmiðlum.



„Þegar valdamikill maður kallar alla umfjöllun sem þjónar ekki hans hagsmunum falskar fréttir, ættu grunsemdir að beinast að honum en ekki fjölmiðlum.“

Þá sagði hann forsetann halda öfugt á spilunum. Einræði væri óvinur þjóðarinnar og frjálsir fjölmiðlar væru óvinir einræðisherra og verndarar lýðræðis. Benti hann á einræðisherra og harðstjórnir sem hafa einnig tekið upp þá hegðun að notast við hugtakið falskar fréttir til að berjast gegn fjölmiðlum.

Hann beindi gagnrýni sinni einnig að flokksbræðrum sínum og systrum og sagði að ummæli forsetans ættu að valda þeim skömm. Þeir yrðu að grípa til aðgerða á árinu og standa við bakið á sannleikanum. Stöðva árásir forsetans og laga þann skaða sem hann hafi valdið og endurvekja traust á stofnanir Bandaríkjanna.

„2018 verður að vera árið þar sem sannleikurinn stendur í hárinu á valdinu sem reynir að grafa undan honum.

Flake, sem hefur ítrekað gagnrýnt Trump á undanförnu ári, hefur tilkynnt að hann ætli að hætta þingmennsku sinni á þessu ári. Þegar hann tilkynnti þá ákvörðun sína sagði hann andrúmsloftið í stjórnmálum Bandaríkjanna vera mengað. Hann virtist ósáttur við Repúblikanaflokkinn og sagði að sagan myndi dæma þá sem sátu aðgerðarlausir hjá á meðan grafið væri undan gildum Bandaríkjanna.

Sjá má ræðu hans í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×