Umræða um heilsu Donalds Trump, og þá sérstaklega geðheilsu hans, fékk byr undir báða vængi með útgáfu bókarinnar Fire and Fury í byrjun árs. Í bókinni er forsetanum lýst sem óhæfum og geðstirðum manni.
Læknirinn taldi að slík rannsókn væri ekki nauðsynleg og hafði ekki áhyggjur af vitsmunalegri heilsu forsetans en hann lét þó til leiðast og framkvæmdi rannsóknina.
„Ég hef engar áhyggjur af vitsmunalegri getu hans eða taugafræðilegri virkni ,“ sagði Jackson í dag.
Jackson sagði að Trump hafi fengið þrjátíu stig af þrjátíu mögulegum í svokölluðu Montreal Cognitive Assessment. Prófið er notað til þess að aðstoða heilbrigðisstarfsmenn við að kanna hvort sjúklingar glími við minniháttar vitsmunalega skerðingu eða Alzheimer.
Við hestaheilsu
Læknirinn sagði á blaðamannafundi í dag að líkamleg heilsa Trump væri einnig til fyrirmyndar.„Hann nýtur mikilsverðs og langvarandi ávinnings af því að hafa aldrei á sinni lífsleið neytt tóbaks og áfengis,“ sagði Jackson en bætti þó við að Trump, sem er 71 árs gamall, myndi njóta góðs af því að borða fitusnauðari fæðu og stunda meiri hreyfingu.
Donald Trump vegur 108 kíló og er 1.90 metrar á hæð og er því á mörkum offitu samkvæmt BMI stuðli. Eftir læknisskoðunina sem fram fór í síðustu viku ræddi hann við lækninn um mataræði sitt og hreyfingu og setti sér það markmið að missa fimm til sex kíló.
Forsetinn ákvað sjálfur hvaða upplýsingar um heilsu hans ættu erindi við almenning og hafa forverar hans ýmist veitt upplýsingar um líkamrækt sem þeir stunda, mataræði og annað sem við kemur heilsu þeirra.