Donald Trump Bandaríkjaforseti er við hestaheilsu að því er fram kemur í yfirlýsingu frá lækni forsetans. Trump gekkst undir fyrstu læknisskoðun sína í embætti á föstudag. BBC greinir frá.
Ronny Jackson, læknir Bandaríkjaforseta, segir læknisskoðunina hafa gengið „með afbrigðum vel“. Skoðunin fór fram í Bethesda í Maryland-ríki á föstudag og stóð yfir í þrjár klukkustundir. Jackson hyggst veita frekari upplýsingar um niðurstöður skoðunarinnar á þriðjudag.
Umræða um heilsu Donalds Trump, og þá sérstaklega geðheilsu hans, fékk byr undir báða vængi með útgáfu bókarinnar Fire and Fury í byrjun mánaðar. Í bókinni er Trump lýst sem óhæfum og geðstirðum manni, og fann forsetinn sig knúinn til að tjá sig sérstaklega um allar vangaveltur þess efnis. „Mínir tveir helstu kostir hafa verið andlegt jafnvægi og að vera, sko, virkilega gáfaður,“ ritaði forsetinn á Twitter-reikningi sínum þann 6. janúar síðastliðinn. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í aðdraganda læknisskoðunarinnar sagði þó að einblínt yrði á líkamlega heilsu forsetans.
Árið 2015, þegar kosningabaráttan í Bandaríkjunum stóð sem hæst, var heilsa Trumps einnig í eldlínunni. Þá lýsti Harold Bornstein, þáverandi læknir Donalds Trump, því yfir að skjólstæðingur sinn yrði „heilbrigðasti einstaklingur til að gegna embætti forseta frá upphafi.“
Í frétt BBC segir að sérfræðingar furði sig á því hvernig Trump, sem þekktur er fyrir að gæða sér á óhollum skyndibita og stunda litla hreyfingu, haldi sér við svo góða heilsu.
Donald Trump við hestaheilsu

Tengdar fréttir

Forseti Bandaríkjanna trompast yfir bók um hann
Sarah Sanders upplýsingafulltrúi Hvíta hússins segir bókina fulla af lygum.

Trump gefur lítið fyrir bókina
Bandaríkjaforseta, er ekki skemmt vegna þeirrar athygli sem bók Michael Wolff hefur fengið síðastliðinn sólarhring.

Tíu bombur úr nýrri bók um Trump
Ný bók blaðamannsins Michael Wolff um það sem gengur á innan veggja Hvíta hússins inniheldur fjöldann allan af afjhúpunum um forseta Bandaríkjanna.