Innlent

Sveitarstjórnir beri einnig ábyrgð á því að tryggja öryggi íþróttaiðkenda

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Áslaug María Friðriksdóttir segir ábyrgð sveitarstjórna á áreitnis-og ofbeldismálum innan íþrótta-og æskulýðshreyfinga einnig vera mikla.
Áslaug María Friðriksdóttir segir ábyrgð sveitarstjórna á áreitnis-og ofbeldismálum innan íþrótta-og æskulýðshreyfinga einnig vera mikla. Sjálfstæðisflokkurinn
Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að ábyrgð sveitarstjórna sé mikil þegar komi að því að tryggja öryggi barna og unglinga sem iðka íþróttir hjá viðkomandi sveitarfélagi í ljósi þess að íþróttafélögin séu styrkt með opinberum sjóðum. Íþróttafélögin séu að veita þjónustu í nafni viðkomandi sveitarfélags. Áslaug María býður sig fram í leiðtogasæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Áttu við að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá sveitarstjórnum?

„Mér finnst ábyrgðin liggja alls staðar í samfélaginu. Ég held það sé ekki hægt að segja að hún liggi meira hjá einum frekar en öðrum en þegar sveitarstjórnir eru að borga með starfi og að styrkja starf stendur maður í þeirri trú að það sé unnið faglega. Manni bregður náttúrulega að lesa svona sögur. Þetta er svo ungt fólk, svo ungar stelpur. Það bara hríslast kalt vatn niður hrygginn,“ segir Áslaug María sem var auðheyrilega brugðið yfir frásögnum íþróttakvenna af áreitni, mismunun, ofbeldi og nauðgunum sem voru gerðar opinberar í fyrradag.



462 núverandi og fyrrverandi íþróttakonur sendu frá sér MeToo yfirlýsingu ásamt 62 reynslusögum.Myndvinnsla/Garðar
Aðgerðaráætlun um verklag í samningsformi við íþrótta-og æskulýðshreyfingar

Áslaug segist ætla að setja þessi mál á oddinn á vettvangi stjórnmálanna en bætir þó við að hún sé ekki tilbúin með nákvæma útfærslu á því hvernig best sé að eiga við málin. Á næstu dögum verði rætt um mögulega útfærslu. „Ég tel að þetta sé mál sem allir verði að taka mjög alvarlega. Hvernig á að bregðast við? Hvaða leiðir eru færar? Hvernig látum við börnin vita?“

„Það hlýtur að vera eðlilegt að þessi félög fái sömu brýningu og aðrir í borgarkerfinu,“ segir Áslaug sem segir að það sé mikilvægt að það verði sett í samninga við íþróttafélögin að fulltrúar þeirra séu búnir að úthugsa í hvaða farveg þau hyggist segja mál af þessum toga og tryggja það að aðilar hljóti áheyrn og meðferð.

Þverpólitískt mál að tryggja öryggi íþróttaiðkenda

Áslaug á ekki von á því að þessi mál verði kosningamál á milli flokka í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hún segir að mikil samstaða ríki um mikilvægi þess að taka hart á þessum málum og að þau skilaboð verði send að áreitni og ofbeldi verði ekki liðin.

„Það er auðvitað mikil samstaða, við vorum allar með í #Me too byltingunni  í pólitíkinni. Ég held það sé ofboðslega mikil samstaða. Ég sé ekki fyrir mér að þetta verði kosningamál milli flokka en þetta setur klárlega málin á dagskrá hjá öllum flokkum,“ segir Áslaug.



Lilja Alfreðsdóttir fundaði í dag með forseta ÍSÍ, framkvæmdastjóra UMFÍ og íþróttakonum.Vísir/Stefán
Stofnuðu starfshóp um gerð aðgerðaráætlunar

Í sömu hugleiðingum er Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, sem nú þegar hefur fundað með fulltrúum íþróttakvenna, starfsmönnum ráðuneytisins, Lárusi L. Blöndal, forseta ÍSÍ, og Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ. Á fundinum var ákveðið að stofna starfshóp á vegum ráðuneytisins um gerð aðgerðaráætlunar um verklag þegar kynbundin áreitni komi upp innan íþrótta-og æskulýðshreyfingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×