Tveir menn til viðbótar voru í lok síðustu viku úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli sem kom upp fyrr í mánuðinum. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Vísi, en fyrst var greint frá því að fjórði maðurinn hefði verið handtekinn í tengslum við málið á vef DV.
Upphaflega voru tveir menn handteknir og úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald. Öðrum þeirra var sleppt í liðinni viku en hinn úrskurðaður í fjögurra vikna varðhald á grundvelli almannahagsmuna.
Fréttablaðið greindi svo frá því á laugardaginn að þriðji maðurinn hefði verið handtekinn við komuna til Íslands frá Spáni á fimmtudaginn. Samkvæmt heimildum blaðsins er um sama mann að ræða og var handtekinn á Spáni um miðjan janúar vegna gruns um alvarlegt ofbeldisbrot gagnvart konu sinni. Honum var sleppt úr haldi þar ytra að loknum yfirheyrslum.
Maðurinn situr hins vegar nú í gæsluvarðhaldi hér heima vegna gruns um aðild að fíkniefnamálinu auk þriðja mannsins sem einnig sætir vikulöngu gæsluvarðhaldi.
Margeir vildi aðspurður ekki fara út í það hversu mikið magn fíkniefna málið snýst um eða um hvaða efni er að ræða. Fíkniefnunum var smyglað hingað til lands í stórum skákmunum og fór lögreglan meðal annars í aðgerðir í húsnæði Skáksambands Íslands vegna málsins. Starfsmenn sambandsins eru þó ekki taldir tengjast málinu.

