Innlent

Stefnt á að gæludýr verði leyfð í Strætó frá og með 1. mars

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Um er að ræða tilraunaverkefni sem myndi standa yfir í eitt ár.
Um er að ræða tilraunaverkefni sem myndi standa yfir í eitt ár. Vísir/Ernir
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur skilað Strætó bs áliti sínu varðandi undanþágu á reglugerð um hollustuhætti sem myndi leyfa gæludýr í Strætó í eitt ár. Um er að ræða tilraunaverkefni og verður bréf ráðuneytisins tekið fyrir á fundi stjórnar Strætó á föstudag.

Strætó sendi erindi vegna verkefnisins í febrúar á síðasta ári og var þar óskað eftir undanþágu frá 55. grein reglugerðar um hollustuhætti eða að breyting verði á reglugerðinni vegna tilraunaverkefnis um gæludýrahald í strætó. Í reglugerðinni segir að dýr megi ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja.

Gaman ef verkefnið gengi upp

Strætó leggur upp með að tilraunaverkefnið miðist við þá afmörkun að gæludýr sem mögulega sé hægt að ferðast með í vagni á höfuðborgarsvæðinu séu hundar, kettir, nagdýr, fuglar í búri, kanínur, froskar, skrautfiskar, skriðdýr og skordýr sem falli ekki undir ólöglegar dýrategundir á Íslandi. Strætó gerir ráð fyrir markvissri eftirfylgni með verkefninu og mun meta árangur þess með reglubundnum hætti.

„Þetta er svo sem búið að vera til skoðunar lengi, alveg frá 2016, hjá strætó,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, stjórnarformaður strætó. Rætt var við Heiðu Björg í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Við megum í rauninni byrja þarna 1. mars. Þannig við höfum febrúar til að undirbúa okkur. Það væri rosa gaman ef okkur tækist að prófa þetta.“

Heiða Björg segir að stjórn strætó hafi vissulega áhyggjur af því að verkefnið reynist þeim erfitt sem eru með ofnæmi. Sú leið sem verði farin til að forðast það verði að dýrum sé gert að vera aftast og þeir sem viðkvæmir eru fyrir dýrum verði fremst. Eins verði dýr ekki leyfð á háannatímum, á milli 7 og 9 á morgnanna og 15 og 18 síðdegis.

„Á þessu tilraunaári reynum við að finna út hvort þetta gangi ekki hér eins og alls staðar annars staðar,“ segir Heiða.

Ólíklegt að fólk taki páfagaukinn á rúntinn

Í áliti ráðuneytisins segir að strætó hafi áhuga á að verkefnið vari í heilt ár svo það nái yfir allar árstíðir. Þannig sé hægt að fá sem heildstæðasta niðurstöðu af verkefninu.

Undanþágan er veitt með þónokkrum skilyrðum. Til dæmis ber Strætó að framkvæmda könnun áður en verkefnið hefst á meðal farþega og vagnstjóra um hvort þau séu hlynnt því að leyfa gæludýr. Þá skulu allir vagnar sem notaðir eru í verkefnið þrifnir sérstaklega vel að innan í lok hvers dags.

Farþegar sem ferðast með gæludýr þurfa að hafa náð 18 ára aldri og bera þeir ábyrgð á dýrunum og jafnframt bera þeir ábyrgð að grípa til aðgerða sé þess þörf til að tryggja öryggi annarra farþega og dýranna sjálfra.

Dýr sem ferðast í strætó skulu vera í töskum eða lokuðum búrum sem tryggja að dýr geti ekki sloppið út. Búr eiga að vera skorðuð eða bundin og geymd í kjöltu ábyrgðaraðila eða á gólfinu við fætur hans. Þó er heimilt að ferðast með hund í ól og beisli sem þannig eru gerð að hundurinn geti ekki smokrað sér úr því. Hundar mega ekki vera í útdraganlegum taumi í vagninum og þá mega þeir ekki vera í sæti.

„Við erum að reyna að gera almenningssamgöngur þannig að þær henti öllum og það eru gæludýr á 40 prósent heimila, þannig að við verðum að reyna að mæta því og ef fólk vill velja almenningssamgöngur sem sinn samgöngukost og á dýr þá verður það líka að vera mögulegt. Ég efast um að einhver setjist í vagninn og fari að rúnta um með páfagaukinn sinn,“ segir Heiða Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×