Handbolti

Nýkomnir úr löngu fríi en spila nú ekki deildarleik í 16 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurbergur Sveinsson.
Sigurbergur Sveinsson. Vísir/Stefán
Eyjamenn unnu í gær sannfærandi níu marka sigur á Fjölni í sextándu umferð Olís-deildarinnar en það verður langt þangað til að þeir spila sinn næsta deildarleik.

Leikur ÍBV og Fjölnis í gær, þriðjudaginn 6. febrúar, verður eini deildarleikur ÍBV liðsins næstu sextán daga. Næsti leikur ÍBV í Olís-deildinni samkvæmt heimasíðu HSÍ verður ekki fyrr en 22. febrúar næstkomandi.

Leikjum Eyjaliðsins í 17. og 18. umferð hefur verið frestað vegna þátttöku ÍBV í Evrópukeppni.

ÍBV mætir ísraelska liðinu  SGS Ramhat Hashron HC í sextán lið úrslitum Áskorendakeppni Evrópu og fá algjöran frið frá Olís-deildinni á meðan.

ÍBV mætir SGS Ramhat Hashron HC fyrst í Vestmannaeyjum 10. febrúar og spilar síðan seinni leikinn út í Ísrael laugardaginn 17. febrúar.

ÍBV þarf reyndar að klára einn leik áður en kemur að Evrópuleikjunum tveimur því liðið heimsækir Gróttu í átta liða úrslitum Coca Cola bikarsins á þriðjudagskvöldið kemur.

Fyrsti leikur ÍBV í Olís-deildinni eftir Ísraelsævintýrið verður heimaleikur á móti Íslandsmeisturum Vals fimmtudaginn 22. febrúar og aðeins þremur dögum síðar koma FH-ingar síðan í heimsókn út í Eyjar. Þremur dögum síðar er síðan þriðji heimaleikur ÍBV á einni viku þegar Selfyssingar mæta út í Eyjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×