Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Haukar 20-35 | Haukar völtuðu yfir Gróttu

Einar Sigurvinsson skrifar
vísir/anton
Haukar unnu öruggan sigur 15 marka sigur á Gróttu, 20-35, í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Sigur Hauka kom þeim upp í 4. sæti Olís-deildarinnar á kostnað Valsmanna, sem töpuðu fyrir Stjörnunni í kvöld.

Heimamenn í Gróttu byrjuðu leikinn af krafti og náðu fljótt tveggja marka forystu, 4-2. Sú forystu hélt þó ekki lengi. Haukar skoruðu næstu fjögur mörk og á 14. mínútu var því staðan orðin 6-4 fyrir Hauka.

Haukar héldu sinni forystu nokkuð auðveldlega. Þeir spiluðu sterka vörn og gekk Gróttumönnum illa að enda sóknir sínar með skotum. Í fyrri hálfleik tóku leikmenn aðeins Gróttu 16 skot. Haukar fóru með þriggja marka forskot inn í hálfleikinn, 11-14.

Snemma í síðari hálfleik varð ljóst að leikurinn yrði ekki spennandi. Á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiksins skoruðu Haukar sjö mörk á meðan Grótta skoraði aðeins tvö. Á 40. mínútu voru Haukar því komnir með átta marka forystu, 13-21.

Haukar héldu sínum takti og kláruðu leikinn auðveldlega. Grótta veitti litla mótspyrnu seinni hluta síðari hálfleiksins og endaði leikurinn með fimmtán marka sigri Hauka, 20-35.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Sigur Hauka var í raun aldrei í hættu. Eins og venjulega spiluðu Haukar öfluga vörn og gekk Gróttu mönnum illa að skapa sér færi úr uppstillum sóknum. Fyrir aftan vörnina átti Björgvin Páll Gústavsson síðan mjög fínan leik, með 35 prósent markvörslu.

Hverjir stóðu upp úr?

Þeir Hákon Daði Styrmisson og Daníel Þór Ingason voru markahæstir í liði Hauka með 7 mörk hvor. Jafnmikið og markahæsti maður Gróttu, Júlíus Þórir Stefánsson.

Hvað gekk illa?

Það gekk ekkert upp hjá Gróttu í síðari hálfleik. Sóknarlega og varnarlega hefur Grótta sýnt töluvert betri takta í vetur. Sigur Fjölnis í kvöld þýðir að Grótta á þarf enn á tveimur stigum að halda til þess að gulltryggja sæti sitt í deildinni. Þeir þurfa að spila töluvert betur en þeir hafa gert undanfarna þrjá leiki, ætli þeir sér að ná því.

Hvað gerist næst?

Framundan er bikarhelgi og eiga Haukar sæti í undanúrslitunum. Þar mæta Haukar sterku liði ÍBV í Laugardalshöllinni, föstudaginn 9. mars. Úrslitaleikurinn fer síðan fram daginn eftir en þar munu annað hvort Haukar eða ÍBV mæta Selfossi eða Fram.

Grótta fær ágætis hvíld, en þeirra næsti leikur fer fram sunnudaginn 18. mars gegn Víkingum í Víkinni.

Gunnar Magnússon þjálfari Hauka.vísir/anton
Gunnar: Vissi að við ættum möguleika á að keyra yfir þá

„Ég er bara ánægður með strákana. Þetta var bara flottur leikur í alla staði, vörn, sókn, markvarsla, hraðaupphlaup. Ég er bara ánægður með drengina, þeir gerðu þetta með sóma,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir 15 marka sigur hans manna á Gróttu, 20-35.

„Auðvitað vantaði menn hjá þeim, þeir voru fáliðaðir. Það gerði verkefnið kannski aðeins auðveldara í seinni hálfleik. Það fjaraði aðeins undan Gróttuliðinu.“

Haukar stungu Gróttumenn af í síðari hálfleik en staðan í hálfleik var 11-14. Gunnar segir þunnskipaður hópur Gróttumanna hafi hjálpað þeim að klára leikinn.

„Auðvitað veit maður að Grótta er með gott lið. En í seinni hálfleik þegar þeir voru orðnir þreyttir og svona fáliðaðir vissi ég að við ættum möguleika á að keyra yfir þá. Það gerðist. Það var svolítið planið að halda góðu tempói í dag og þreyta þá svolítið.“

Þar sem Valur tapaði fyrir Stjörnunni í kvöld fara Haukamenn upp í 4. sætið í deildinni. Gunnar telur að fjórða sætið og heimavallarrétturinn geti komið til með að skipta máli þegar kemur að úrslitakeppninni.

„Auðvitað viljum við bara lenda eins ofarlega og við getum. Það er alltaf betra að hafa heimaleikjaréttinn. Við eigum tvo leiki eftir og við þurfum bara að vinna þá. Þá erum við með heimavallarréttinn, það er undir okkur komið.“

Næsta verkefni hjá Haukum er bikarhelgin, en þeir mæta ÍBV í undanúrslitum. Það verkefni leggst vel í Gunnar.

„Ég er ánægður með að hafa getað að notað alla breiddina í dag. Engin rauð spjöld og allir heilir og klárir í bikarhelgina. Við mætum þangað fullir sjálfstrausts. Það er hrikalega skemmtilegt verkefni að mæta Eyjamönnum þar og okkur hlakkar mikið til. Það verður bara gaman,“ sagði Gunnar Magnússon að lokum.

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu.Vísir/Stefán
Kári: Í okkar höndum að klára næsta leik

„Ég var mjög ánægður með strákana í fyrri hálfleik. Þeir unnu mikla vinnu og við vorum að spila framliggjandi á Haukana. Við náðum að stýra hraðanum og gera marga mjög góða hluti,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, í leikslok.

„En svo bara mæðir mikið á fáum leikmönnum og botninn dettur úr þessu í seinni hálfleik. Kannski fyrst og fremst í sóknarleiknum þar sem við náum ekki skotum á markið og þeir fá hraðaupphlaup, það eru bara alveg Haukarnir út í gegn.“

Gengi Gróttu hefur verið afleitt í deildinni að undanförnu. Grótta hefur tapað síðustu þremur leikjum með 9, 14 og 15 marka mun.

„Það vantar Bjarna sem spilar lykilhlutverk í vörn og sókn. Nökkvi er mjög góður sóknarmaður og Daði var ekki með í einum af þessum tapleikjum. En þetta eru stór töp, síðustu þrjú.

Næsti leikur Gróttu er á móti Víkingum og segir Kári að þar sé ekkert annað í boði en að vinna og tryggja liðinu áframhaldandi veru í Olís-deildinni.

„Við verðum bara að gjöra svo vel og skilja við þessa síðustu leiki og horfa fram á þessa tvo lokaleiki. Við eigum enn möguleika á að falla og það er í okkar höndum að klára það í næsta leik,“ sagði Kári að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira