Handbolti

Seinni bylgjan: Nota myndbandsupptökur og fimm leikja bönn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nokkur ljót brot sáust í 20. umferð Olís-deildar karla í handbolta og fóru sömuleiðis nokkur rauð spjöld á loft. Eitt umdeilt leit dagsins ljós í Vestmannaeyjum þar sem Róbert Sigurðarson, leikmaður ÍBV, fékk rautt fyrir að slá Ísak Rafnsson, leikmann FH.

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, gjörsamlega brjálaðist þrátt fyrir að leikurinn væri unninn og aðeins 30 sekúndur voru eftir af leiknum enda gæti farið svo að Róbert fari í eins leiks bann.

Gunnar Berg Viktorsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport HD, vill að myndbandsupptökur séu notaðar meira hjá aganefnd HSÍ og þá vill hann sjá lengri bönn fyrir ljót brot til að útrýma þessu úr handboltanum.

„Við eigum ekki að spila „brútal“ handbolta. Það á að taka á því. Ef það er gert eiga menn að fá rautt og bann,“ sagði Gunnar Berg og fór svo af stað.

„Mig langar að spyrja að einu. Nú eru allir leikirnir teknir upp og það gerðist um daginn að Jóhann Birgir sló í typpið á einum og hann fékk eins leiks bann eftir að aganefnd skoðaði það eftir á. Af hverju getur þessi aganefnd ekki komið saman og við getum sýnt þeim allskonar atvik þar sem menn eru slegnir í andlitið.“

„Ef þetta er gert í smá tíma og menn eru dæmdir ekki bara í eins leiks bann heldur kannski fimm leiki fyrir að kýla einhvern í andlitið þá hættir þetta. Það á að taka almennilega á þessu. Suárez nartaði í einhvern Ítala og fékk sex mánaða bann. Þetta verður að vera alvöru mál og við eigum að nota þetta sem hjálpartæki.“

„Það er ekki spurning um að það eigi að nota þetta. Kannski snýst þetta um peninga eða hreinlega bara að nenna þessu hjá HSÍ og dómaranefndinni. Það er einn maður dæmdur eftir upptöku en af hverju hætta þeir þar?“ sagði Gunnar Berg Viktorsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×