Handbolti

Aron Dagur puttabrotinn│Óvíst með úrslitakeppnina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Dagur Pálsson.
Aron Dagur Pálsson. Vísir/Andri Marinó
Aron Dagur Pálsson verður ekki með Stjörnunni í loka leik Olís deildar karla þar sem hann gekkst undir aðgerð á fingri í dag. Þetta staðfestir Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við íþróttadeild.

Stjarnan er í 7. sæti Olís deildarinnar fyrir síðustu umferðina og verður að sækja sigur gegn FH ætli þeir sér í sjötta sætið. Þar situr Afturelding en bæði lið eru með 21 stig. Afturelding stendur hins vegar betur að vígi í innbyrðisviðureignum þessara liða og er því fyrir ofan Stjörnuna.

Aron Dagur lék ekki með Stjörnunni gegn ÍBV í gærkvöld þar sem hann puttabrotnaði í bikarfríinu. Hann fór eins og áður segir í aðgerð í dag og munu meiðsli Arons vera álíka þeim sem Haukur Þrastarson hlaut fyrr í vetur.

Einar sagði möguleika á því að Aron Dagur nái að spila í úrslitakeppninni ef allt gengur að óskum. 8-liða úrslitin hefjast um miðjan apríl og miðað við stöðuna í deildinni í dag myndi Stjarnan mæta Selfyssingum í 8-liða úrslitunum.

Aron Dagur er einn af markahæstu mönnum Stjörnuliðsins í vetur, hefur skorað 75 mörk í 16 leikjum og er mikill missir fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×