Ronaldo skoraði fjögur eftir Íslandsdvölina

Anton Ingi leifsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar í kvöld. vísir/getty
Cristiano Ronaldo skoraði fjögur mörk þegar Real Madrid vann 6-3 sigur á Girona en leikurinn var afar hraður og mikið fyrir augað. Ronaldo var á Íslandi fyrr í vikunni og það er ljóst að hann hefur notið tímans hér því í kvöld var kappinn funheitur.

Ronaldo kom Real yfir strax á elleftu mínútu en Cristian Stuani jafnaði metin fyrir spútniklið Girona á 29. mínútu. Staðan jöfn í hálfleik, 1-1.

Ronaldo var ekki lengi að koma Real yfir í síðari hálfleik. Hann kom Real í 2-1 á 47. mínútu og tólf mínútum síðar skoraði Lucas Vascuew.

Á 64. mínútu skoraði Ronaldo sitt þriðja mark í leiknum en þremur mínútum síðar minnkaði Cristian Stuani muninn í 4-2. Leikmenn Real voru ekki hættir, Gareth Bale vildi taka þátt í veislunni og hann skoraði fimmta mark Real á 86. mínútu.

Enn voru Girona ekki af baki dottnir og Juanpe minnkaði muninn eftir hornspyrnu tveimur mínútum fyrir leikslok og flestir héldu að leiknum myndi ljúka með 5-3 sigri.

Ronaldo var ekki á sama máli og bætti við fjórða marki sínu í uppbótartíma og lokatölur 6-3. Tíunda mark Ronaldo í síðustu fjórum leikjum og hann er að hitna á svakalegum tíma; framundan er átta liða úrslit í Meistaradeildinni.

Real er í þriðja sætinu, fimmtán stigum á eftir Barcelona, en Girona er í sjöunda sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira