Handbolti

Seinni bylgjan: „Góður en ekki grófur“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Uppgjörsþáttur Seinni bylgjunnar var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á föstudaginn. Þar fóru Tómas Þór Þórðarson og sérfræðingar hans, Gunnar Berg Viktorsson og Jóhann Gunnar Einarsson, yfir lokaumferðina og gerðu upp tímabilið.

Strákarnir völdu lið ársins og þjálfara ársins ásamt því að útnefna varnarmann ársins. Þá tilnefningu fékk Valsmaðurinn Alexander Örn Júlíusson.

Alexander var meðal annars með 116 löglegar stöðvanir í vetur, Valur var með þriðju bestu tölfræðina yfir löglegar stöðvanir sem lið og þá setti hann 32 mörk.

„Ég var ekki með 116 löglegar stöðvanir á ferlinum,“ sagði Jóhann Gunnar. „Hann var kannski ekki augljósasta valið en hann er búinn að vera mjög stabíll síðustu tvö, þrjú ár og sýndi það heldur betur að hann geti spilað þrist vel.“

Alexander var mættur í settið til strákanna og fór yfir tímabilið. Stefán Árni Pálsson hafði orð á því í viðtalinu að Alexander væri með orðspor á sér sem einn grófasti leikmaður deildarinnar og fólk væri fljótt upp þegar hann ætti í hlut.

„Ég hugsa að ég hafi komið þessu óorði á mig sjálfur að einhverju leiti, fyrstu árin í deildinni. En ég vil meina að þetta sé misskilningur, ég er oft rangur maður á röngum stað,“ sagði Alexander sem var valinn í íslenska landsliðið í fyrsta skipti á dögunum.

„Vonandi fer umræðan núna meira út í það að ég sé góður en ekki grófur.“

Alexander er sonur Júlíusar Jónassonar, sem á að baki fjölda landsleikja fyrir Ísland. Hann sagði þá feðga þó ekki eyða of mörgum kvöldum í kennslustundir í handbolta.

„Það er þegjandi samkomulag okkar á milli að hann sé fyrst og fremst pabbi minn. En ég leita mikið til hans,“ sagði Alexander Örn Júlíusson.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×