Handbolti

Selfoss kærir leik ÍBV og Fram

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Agnar fagnar eftir sigurmarkið á miðvikudaginn.
Agnar fagnar eftir sigurmarkið á miðvikudaginn. vísir/valli
Handknattleiksdeild UMF Selfoss hefur kært framkvæmd leiks Fram og ÍBV í loka umferð Olís deildar karla sem fram fór á miðvikudag. Stjórn handknattleiksdeildar gaf út yfirlýsingu þess efnis í dag.

Íþróttadeild greindi frá því í gær að Fram hefði átt að fá vítakast eftir sigurmark Agnars Smára Jónssonar þar sem ÍBV var með of marga leikmenn inni á vellinum.

Þar sem ÍBV vann leikinn urðu Eyjamenn deildarmeistarar en hefðu Framarar skorað úr vítakastinu og jafntefli orðið niðurstaðan hefði Selfoss orðið deildarmeistari.

Í ljósi myndbandsins sem birtist á Vísi og í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær hefur Selfoss ákveðið að kæra.

Sjá einnig: Fram átti að fá vítakast eftir sigurmark ÍBV

Í yfirlýsingunni segir að: „Kröfur kæranda eru að endurtekinn verði sá leiktími sem var eftir þegar hið kærða atvik átti sér stað en til vara að leikurinn verði spilaður aftur í heild sinni.“

„Úrslit leiksins ráða því hvort ÍBV eða Umf. Selfoss séu deildarmeistarar og varðar því rétt framkvæmd leiksins miklu fyrir bæði félögin.“

Yfirlýsing frá Handknattleiksdeild Umf. Selfoss

Stjórn handknattleiksdeildar Umf. Selfoss ákvað á fundi hinn 22. mars sl. að kæra framkvæmd leiks Fram og ÍBV sem fram fór 21. mars sl. Af upptökum sem birst hafa opinberlega af leiknum er ljóst að ÍBV tefldi fram of mörgum leikmönnum á síðustu sekúndum leiksins, sbr. visir.is; https://www.visir.is/g/2018180329567/fram-atti-ad-fa-vitakast-eftir-sigurmark-ibv-

Af leikreglum HSÍ er ljóst að refsing við broti sem þessu er brottvísun leikmanns og vítakast til handa mótherja.

Kröfur kæranda eru að endurteknn verði sá leiktími sem var eftir þegar hið kærða atvik átti sér stað en til vara að leikurinn verði spilaður aftur í heild sinni.

Úrslit leiksins ráða því hvort ÍBV eða Umf. Selfoss séu deildarmeistarar og varðar því rétt framkvæmd leiksins miklu fyrir bæði félögin.

Selfossi, 23. mars 2018;

Handknattleiksdeild Umf. Selfoss


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×