Skömmu fyrir klukkan 23:00 í gærkvöld varð snarpur jarðskjálfti í sunnanverðri Bárðarbunguöskjunni en hann mældist 4,3 að stærð. Honum fylgdu nokkrir minni skjálftar. Annar skjálfti að stærðinni 2,5 varð svo um tuttugu mínútur fyrir eitt í nótt.
Að sögn Bjarka Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðings á vakt hjá Veðurstofu Íslands, hefur enginn gosórói mælst með jarðskjálftunum. Bjarki sagði að fyrsti snarpi skjálftinn í gærkvöldi hafi mælst á svæðinu rétt um hálf sjö og að hann hafi verið 2,8 að stærð.
Árið 2014 varð fjöldi jarðskjálfta í Bárðarbunguöskjunni og mældist stærsti þeirra 5,7 að stærð og var það undanfari eldgossins í Holuhrauni, sem stóð frá september það ár og fram í febrúar 2015.
Í lok janúar á þessu ári mældist stærsti skjálftinn í Bárðarbungu, frá goslokum í Holuhrauni eða að 4,9 að stærð, í norðanverðri kötluöskjunni en reglulega frá árinu 2014 hafa orðið snarpir jarðskjálftar á svæðinu.
Lítið sem ekkert hefur verið um eftirskjálfta á svæðinu í kvöld.
