Barr er helst þekkt fyrir gamanþættina „Roseanne“ sem hún lék aðalhlutverkið í á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Þættirnir hófu göngu sína á ný í vikunni og hringdi Trump meðal annars í Barr til að óska henni til hamingju með mikið áhorf sem fyrsti þátturinn fékk. Barr er stuðningskona forsetans og persóna hennar í þáttunum sömuleiðis.
Í tísti leikkonunnar í gærkvöldi lofaði hún Trump fyrir að hafa „frelsað svo mörg börn sem melludólgar halda um allan heim“. Barr sagði Trump hafa brotið mansalshringi „á háum stöðum“ á bak aftur. Margir fylgjendur hennar og aðrir notendur voru hins vegar ekki með á nótunum.

Á samfélagsmiðlinum 4Chan, sem er alræmt fylgsni margra verstu trölla internetsins, varð til kenning um að Trump væri að vísa til aðgerða gegn barnaníðshring háttsettra demókrata og frægra einstaklinga sem forsetinn stæði í baráttu við.
Barr hefur meðal annars falast eftir því að komast í samband við höfund samsæriskenningarinnar á Twitter. Sá heldur því fram að andstæðingar Trump séu djöfladýrkendur og barnaníðingar.