Innlent

Þingmönnum boðið að rækta núvitundina

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Núvitund í Alþingishúsinu? Hví ekki?
Núvitund í Alþingishúsinu? Hví ekki?
Tvö verkefni Núvitundarsetursins voru meðal þeirra 169 sem fengu úthlutaða styrki úr Lýðheilsusjóði. Annað verkefnið er rannsóknarverkefni sem snýr að innleiðingu núvitundar í grunnskóla en hitt varðar núvitund á Alþingi.

„Innleiðingin hófst í þrjá skóla, samkvæmt bresku módeli, nú í upphafi árs. Styrkurinn er hugsaður til að vinna tveggja ára rannsókn á því hvaða áhrif núvitundin hafði á kennara og nemendur,“ segir Anna Dóra Frostadóttir, sálfræðingur hjá Núvitundarsetrinu. Verkefnið er unnið í samræmi við lýðheilsustefnu og í samstarfi við Landlæknisembættið.

Innleiðing núvitundar á Alþingi byggir einnig á bresku módeli en þingmönnum á Bretlandi bauðst fyrir fimm árum námskeið í núvitund. „Í kjölfar þess upplifðu þeir mikil jákvæð áhrif. Aukna vellíðan, betri athygli, minni streitu og skýrari hugsun,“ segir Anna Dóra. Svo ánægðir voru bresku þingmennirnir með núvitundina að stofnuð var nefnd innan þingsins um verkefnið. Stóð hún meðal annars fyrir ráðstefnu um efnið fyrir þingmenn annarra landa. Tveir íslenskir þingmenn sóttu ráðstefnuna ásamt Önnu.

„Breski þingmaðurinn Chris Ruane bauðst til þess að koma hingað til lands og kynna núvitund fyrir þingmönnum. Einnig mun þeim standa til boða sambærilegt námskeið í haust og er styrkurinn veittur til þess,“ segir Anna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×