Handbolti

Hrun hjá Hlíðarendafélaginu á öllum vígstöðum í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Vilhelm
Valsmenn fengu skell þegar þeir duttu út úr Evrópukeppninni, þeir fengu skell þegar duttu út úr bikarnum og þeir fengu skell þegar þeir voru sendir í sumarfrí í úrslitakeppninni. Þetta var svo sannarlega ekki tímabil Hlíðarendaliðsins.

Valsmenn koma inn í þetta tímabil sem ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar í handbolta auk þess að komast í undanúrslit Evrópukeppninnar á mögnuðu tímabili í fyrra. Það var hinsvegar hrun hjá Hlíðarendaliðinu á öllum vígstöðum á þessari leiktíð.

Fyrsta tímabil Snorra Steins Guðjónssonar sem þjálfara voru mikil vonbrigði því það var ekki aðeins sú staðreynd að Valsmenn misstu báða titlana frá sér heldur miklu frekar hvernig þeir duttu úr keppni á öllum þremur vígstöðum.

Valsmenn töpuðu með sjö marka mun þegar þeir duttu út úr bikarnum, þeir töpuðu með 9 marka mun þegar þeir duttu út úr Evrópukeppninni og þeir töpuðu með 10 marka mun þegar þeir duttu út á móti Haukum í gær.

Valsliðið brotnaði í hvert skipti þar sem reyndi virkilega á það og fyrir vikið var liðið langt frá því að endurtaka afrek sín frá því í fyrra.

Valur vann aðeins tvo leiki í úrslitakeppni, bikar eða Evrópukeppni en það eru fjórtán færri sigurleikir en í fyrra. Samanburð á þessu má sjá hér fyrir neðan.

Munur á sigurleikjum Valsmanna 2016/17 og 2017/18

Úrslitakeppnin

2016-17: 8

2017-18: 0

Munur: -8

Bikarkeppnin

2016-17: 4

2017-18: 1

Munur: -3

Evrópukeppnin

2016-17: 4

2017-18: 1

Munur: -3

Samtals í úrslitakeppni, bikar og Evrópukeppni:

2016-17: 16

2017-18: 2

Munur: -14




Fleiri fréttir

Sjá meira


×