Handbolti

Hergeir: Ég þurfti aðeins að kveikja í þessu

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Hergeir í leik með Selfyssingum í vetur
Hergeir í leik með Selfyssingum í vetur
„Þetta var gaman. Þetta var auðvitað alveg geggjaður leikur. Fyrri hálfleikurinn var lélegur en við sýndum svo brjálaðan karakter í seinni hálfleik,“ sagði maður leiksins, Hergeir Grímsson, eftir sigur Selfoss á Stjörnunni, 28-30, í úrslitakeppni Olís deildar karla í handbolta.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var virkilega ósáttur með fyrri hálfleik Selfyssinga í kvöld og sagði að Hergeir hefði verið eini maður liðsins sem spilaði vel fyrstu 30 mínútur leiksins.

„Ég dett oft í einhvern gír og verð eitthvað brjálaður og það virkaði í dag. Fullt af Selfyssingum mættir og maður verður að öskra á þessa menn og koma þeim í gírinn,“ sagði Hergeir og bætti tók sérstaklega fram hversu magnaður stuðningur Selfyssinga var en þeir fjölmenntu svo sannarlega á völlinn.

„Það er auðvitað klikkað. Ég er eiginlega orðlaus.“

Selfoss hefur haft orð á sér að koma til baka í leikjum í vetur og í kvöld endurtóku þeir leikinn. Byrjuðu illa en enduðu sem verðskuldaðir sigurvegarar.

„Við erum með karakter í liðinu. Við vitum alveg hvað við getum. Stundum byrjum við illa en við vitum alltaf að við munum hrökkva í gírinn. Eins og við gerðum í dag.“

Á 37. mínútu fékk Stjörnumaðurinn, Bjarki Már Pétursson, beint rautt spjald fyrir brot á Elvari Erni Jónssyni. Hergeir og Sveinbjörn Pétursson, markmaður Stjörnunnar tveggja mínútuna brottvísun fyrir herlegheitin sem fylgdu á eftir en bókstaflega allt ætlaði að sjóða upp úr.

„Maður þurfti bara að kveikja aðeins í þessu. Þetta var orðið svolítið rólegt. Það virkaði. Ég var samt kannski full ágengur þarna,“ sagði Hergeir sem skoraði 10 mörk úr 13 skotum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×