Umfjöllun og viðtöl: FH - Afturelding 34-32 | FH komið yfir

Benedikt Grétarsson skrifar
Línumaður Aftureldingar, Pétur Júníusson, í leik gegn FH.
Línumaður Aftureldingar, Pétur Júníusson, í leik gegn FH. vísir/stefán
FH er með 1-0 forystu í einvígi sínu við Aftureldingu í 8 liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik. Liðin mættust í Kaplakrika og FH vann tveggja marka sigur, 34-32.

Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur í liði FH með 8 mörk og Ágúst Elí Björgvinsson varði 10 skot.

Markahæstur í liði Aftureldingar voru Gestur Ólafur Ingvarsson og Elvar Ásgeirsson með sex mörk hvor. Lárus Helgi Ólafsson varði átta skot í markinu.

Þær gleðifréttir bárust úr herbúðum Aftureldingar fyrir leikinn að Elvar Ásgeirsson yrði í leikmannahópi liðins en Elvar hefur ekkert leikið eftir áramót vegna meiðsla.

Leikurinn var í jafnvægi framan af fyrri hálfleik en heimamenn þó alltaf skrefi á undan. Í stöðunni 10-9 misstu leikmenn Aftureldingar þráðinn og sterkir FH-ingar gegnu eldsnöggt á lagið. FH skoraði næstu fimm mörk og komst í 15-9.

Afturelding náði aðeins að rétta sinn hlut fyrir hálfleik en staðan að loknum 30 mínútum var 16-12, FH í vil.

Afturelding reyndi að breyta varnarleik sínum í seinni hálfleik og kom lengra út á völlinn. Að skilja varnarmann í stóru svæði með Gísla Þorgeir er hins vegar áhættusamt og ungstirnið gjörsamlega fór á kostum á upphafsmínútum seinni hálfleiks.

Heimamenn mölluðu áfram eins og gömul dráttarvél og muldu Aftureldingu í rólegheitum undir sig. Munurinn var kominn í sjö mörk þegar rúmlega 10 mínútur voru eftir og fátt sem benti til þess að Afturelding gæti gefið FH leik á lokakaflanum.

Gestirnir byrjuðu þá að leika 7 gegn 6 í sókninni og það gekk vel. Elvar Ásgeirsson kom af krafti inn í sóknina og Lárus Helgi byrjaði að verja eins og berserkur í markinu.

Munurinn fór niður í tvö mörk þegar mínúta var eftir og Elvar Ásgeirsson fékk dauðafæri til að minnka muninn í eitt mark. Ágúst Elí Björgvinsson varði hins vegar skotið og FH landaði sigrinum.

Af hverju vann FH leikinn?

FH er með betra lið en Afturelding og á „eðlilegum“ degi eiga Hafnfirðingar að klára dæmið á heimavelli. Afturelding kastaði frá sér ágætri stöðu seint í fyrri hálfleik, þegar menn létu reka sig út af fyrir kjaftbrúk og vitlausar skiptingar. Á þessum kafla náði FH forskoti sem gestirnir áttu erfitt með að brúa.

Hverjir stóðu upp úr?

Gísli Þorgeir Kristjánsson var frábær í liði FH. Hann skoraði mikið og mataði félaga sína með frábærum sendingum. Ótrúlega öflugur leikmaður sem á eftir að gleðja handboltaáhugafólk næstu árin. Einar Rafn skilar alltaf sínu og Ágúst Elí varði mikilvæga bolta.

Gestur Ólafur Ingvarsson lék vel í liði Aftureldingar og Elvar virðist vera að koma sterkur eftir erfið meiðsli.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Aftureldingu að stoppa sóknarleik FH og sömuleiðis voru FH-ingar í vandræðum varnarlega í seinni hálfleik. Víkingaklapps-tilraun stuðningsmanna FH gekk líka frekar illa og spurning um að leyfa klappinu bara að vera á landsleikjum?

Hvað gerist næst?

Liðin mætast að Varmá á sunnudaginn. Bæði liðin geta bætt mikið af hlutum í sínum leik en bæði liðin geta líka tekið ýmislegt jákvætt með sér í þann leik. FH þarf að finna lausnir gegn sjö manna sóknarlínu Aftureldingar og Afturelding þarf að koma nokkrum lykilmönnum í takt við leikinn.

 

Gísli: Búinn að sakna þess að spila í KaplakrikaGísli Þorgeir Kristjánsson lék afar vel með FH í 34-32 sigri liðins gegn Aftureldingu. FH leiðir í einvíginu 1-0 en vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í næstu umferð.

FH hafði frumkvæðið allan leikinn en Afturelding hleypti spennu í leikinn undir lokin. Kannski of mikla spennu miðað við gang leiksins?

„Já, algjörlega. Leikurinn í heild sinni er samt jákvæður og spilamennskan fín. Vörnin dettur reyndar aðeins niður á síðustu 10 mínútunum,“ sagði Gísli.

„Við vorum að fá góð færi en við vorum líka að klikka. Tæknifeilar voru of margir og á dýrkeyptum augnablikum. Við hleypum þeim bara full nálægt en Gústi bjargar okkur hérna í lokin þegar þeir gátu minnkað muninn í eitt mark.“

En hvað þurfa FH-ingar að laga fyrir leikinn í Mosfellsbæ?

„Við þurfum aðallega bara að halda áfram að gera það sem við vorum að gera hérna í 50 mínútur. Við dettum niður síðustu 10 mínúturnar en fyrstu 50 mínútur leiksins voru frábærar hjá okkur.“

Olísdeildin hefur verið í löngu fríi og Gísli er ánægður að komast aftur í slaginn.

„Ég er persónulega búinn að sakna þess að spila hérna í Kaplakrika fyrir framan FH-inga og þetta var bara gaman.“

Gísli lék mikið með landsliðinu á æfingamótinu um síðustu helgi. Finnst honum hann koma ferskur og fullur sjálfstrausts frá því verkefni?

„Ég veit ekki með ferskur! Ég er búinn að vera meiddur í tæplega 3 mánuði og spila svo þrjá leiki á fjórum dögum. Ég var með gott fólk til að hjálpa mér og ég kom allavega nokkuð ferskur inn í leikinn í dag,“ sagði nokkuð ferskur Gísli Þorgeir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira