Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - ÍR 22-18 | ÍBV leiðir eftir mikla baráttu

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Eyjamenn eru með gríðarlega öflugt lið.
Eyjamenn eru með gríðarlega öflugt lið. vísir/ernir
ÍBV vann fjögurra marka sigur, 22-18, í fyrsta leiknum gegn ÍR í 8 liða úrslitum Olís-deildar karla. Eftir hörku fyrri hálfleik var staðan 9-8 en góður síðari hálfleikur hjá ÍBV skilaði þeim sigri í dag.

Leikurinn byrjaði rólega, fyrsta markið kom á 5 mínútu leiksins og aðeins þrjú mörk skoruð eftir 13 mínútur. Það var hart barist og voru bæði liðin að spila afbragðs varnarleik. ÍBV spilaði sinni klassísku 5+1 vörn á meðan ÍR spilaði mjög þétta og árásagjarna vörn þar sem þeir mættu ÍBV af mikilli ákefð og gáfu þeim ekkert eftir. Seinni hluta fyrri hálfleiks fór að taka almennilega mynd á leikinn, jafnræði var með liðunum sem skiptust á að skora og staðan í hálfleik 9-8 ÍBV í vil. 

ÍBV byrjaði síðari hálfleikinn betur og skoruðu 3 fyrstu mörkin, staðan þá 12-8. Fljótlega voru aðeins 10 leikmenn inná vellinum, tveir leikmenn í hvoru liði fengu brottvísun en mikið var um tveggja mínútna brottvísanir í leiknum. 

Agnar Smári meiddist í upphafi fyrri hálfleik, kom aðeins inn aftur í síðari hálfleik en óvíst er með hvernig staðan á honum er. Sveinn Andri Sveinsson meiddist um miðbik síðari hálfleiks og spilaði ekki meira fyrir ÍR sem reyndist ansi dýrt. Sveinn var búinn að vera frábær fyrir gestina. 

En ÍBV gaf þessa forystu ekki frá sér og leiddu leikinn það sem eftir var. Gestirnir héldu leiknum þó spennandi, tveggja marka munur var á liðunum þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka, 20-18, en ÍBV kláraði þær mínútur og loka staðan 22-18. 

Af hverju vann ÍBV?

ÍBV býr yfir miklum gæðum og það var ástæðan fyrir sigrinum í dag. Þetta var ekki þeirra besti leikur, sóknarlega áttu þeir oft erfitt en vörn og markvarsla var í toppstandi í dag.

Hverjir stóðu uppúr? 

Elliði Snær Viðarsson var frábær í liði ÍBV. Var með ótal stolna bolta, reyndist ÍRingum erfiður í vörninni og skoraði hann 4 mörk. Kári Kristján með góðan leik í sókninni, atkvæðamestur í liði ÍBV með 6 mörk en Aron Rafn Eðvarðsson þó einn besti leikmaður ÍBV í dag, var frábær í markinu og varði mikilvæga bolta. 

Sveinn Andri Sveinsson átti góðan leik varnar og sóknarlega hjá ÍR, en Bergvin Þór Gíslason var markahæstur í liði gestanna með 5 mörk.

Hvað gekk illa?

ÍBV átti í erfiðleikum með vörn ÍR sem kom þeim á óvart með kröftugri vörn. Illa gekk að halda leikmönnum inná vellinum en 11 brottvísanir voru gefnar í dag. Uppstilltur sóknarleikur gekk ekkert sérstaklega vel hjá ÍR, þeir spiluðu 7 leikmönnum á 6, fremsti maður ÍBV varnarinnar gerði þeim erfitt fyrir og fengu gestirnir þá auðveld mörk í bakið þar sem Grétar Ari var utan vallar

Hvað er framundan?

Annar leikur liðanna í einvíginu fer fram á sunnudaginn, þá tekur ÍR á móti ÍBV í Austurbergi.

Bjarni: Fá að komast upp með að slasa leikmenn viljandi

„Mér fannst dómararnir dæma ágætlega en ég er orðinn ansi þreyttur á þessum leikaraskap í ÍBV. Þeir henda sér í jörðina við hvert einasta tilefni og þeir fá ekki einu sinni gult eða tvær eða neitt,” sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, er rætt var við hann í leikslok.

„Þetta er búið að viðgangast í þrjú fjögur ár og ég er orðinn verulega þreyttur á þessu,” sagði Bjarni sem var langt því frá hættur að senda Eyjamönnum tóninn:

„Sama og þegar Maggi (Magnús Stefánsson, leikmaður ÍBV) tekur Svein Andra út um leiknum, dúndrar í andlitið á honum og Sveinn getur ekkert spilað meira. Hann verður pottþétt ekki með í næsta leik.”

„Þetta er Maggi búinn að stunda í ansi mörg ár og það er ansi leiðinlegt að hann fái að komast upp með það að slasa leikmenn viljandi til að vinna leiki.”    

„Hann fór út í hann og bombaði í andlitið á honum. Það er náttúrlega bara þriggja eða fimm leikja bann. Þetta er hluti sem við í handboltanum viljum útrýma og dómararnir líka. Þess vegna fannst mér kjarkleysi hjá þeim að taka ekki á þessu broti.”

„Mér fannst dómararnir fínir og þeir eiga pottþétt eftir að endurskoða þetta. Maggi fer pottþétt í bann fyrir þetta. Ég hef ekki trú á neinu öðru,” en allt viðtalið við Bjarna má sjá í spilaranum efst í fréttinni.

Arnar: Þetta er honum til skammar

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, heyrði þessi orð Bjarna og hann var verulega ósáttur við þessi orð kollega síns hjá ÍR.

„Mér finnst þetta til skammar. Fáránlegt að hlusta á þetta og honum ekki til sóma,” sagði Arnar í leikslok. „ÍR er með hörkulið og spiluðu fanta vörn. Þeir slógu okkur aðeins út af laginu og við náðum að vinna þetta mjög vel.”

„Það kom mér á óvart hvað við vorum lengi að ná tökum á þessu. Ég skil að Bjarni (Fritzson, þjálfari ÍR) hafi verið ánægður með línuna. Þeir fengu að spila og hlusta á þá væla þarna, jesús minn kristur. Þetta er honum til minnkunar.”

„Ef að þetta er línan sem er þá önnur en í deildinni þá komust þeir vel frá þessu. Ef að þetta á að vera svona þá komust þeir vel frá þessu en línan er allt önnur. Menn eru að fá að komast upp með meira hér en áður og ef það á að vera þannig þá komust þeir vel frá þessu.”

Nánar er rætt við bæði Bjarna og Arnar í sjónvarpsglugganum hér efst í fréttinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira