Bandarískir fjölmiðlar eru byrjaðir að birta stutta kafla úr nýrri bók frá Comey sem er væntanleg á þriðjudag. Þar segir Comey að forsetinn sé „ósiðlegur“ og „óbundinn sannleikanum“. Trump rak Comey vegna Rússarannsóknarinnar svonefndu í maí í fyrra. Repúblikanar hafa þegar dregið upp áætlun til að mæta Comey í fjölmiðlum, meðal annars með því að brennimerkja hann sem lygara.
Leiða má líkum að því að fjölmiðlaumfjöllunin hafi verið kveikjan að tveimur tístum Trump um Comey í morgun sem eru sérstaklega harðorð, jafnvel á hans mælikvarða.
„James Comey er staðfestur LEKARI og LYGARI. Svo gott sem allir í Washington töldu að hann ætti að vera rekinn fyrir ömurlegt starf þangað til hann var í reynd rekinn. Hann lak TRÚNAÐAR upplýsingum sem ætti að vera sóttur til saka fyrir. Hann laug eiðsvarinn að þinginu,“ básúnaði Trump í fyrra tístinu.
Hann fylgdi því eftir skömmu síðar og lét gaminn áfram geisa um Comey.
„Hann var veikur og ósannsögull óþokki [e. slime ball] sem var eins og tíminn hefur leitt í ljós hræðilegur forstjóri FBI,“ tísti Trump og sagði að meðhöndlun Comey á rannsókninni á Hillary Clinton, sem Trump kallar sem fyrr „spillta“, hafi verið eitt mesta klúður sögunnar.
„Það var mér mikill heiður að reka James Comey!“ segir Trump.

Það yrði ekki í fyrsta skipti sem Trump hefur farið með fleipur í tengslum við samskipti sín við Comey. Í fyrra gaf forsetinn sterklega í skyn að til væru upptökur af samtölum þeirra í Hvíta húsinu og því ætti Comey að gæta orða sinna.
Einhverju síðar neyddist Trump þó til að viðurkenna að engar slíkar upptökur væru til.