Handbolti

Meistaraheimsókn í Seinni bylgjunni: „Steinunn lætur okkar allar líta illa út“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þórey Rósa, Karen og Steinunn í settinu í gær.
Þórey Rósa, Karen og Steinunn í settinu í gær. vísir/vilhelm
Fram varð í gær Íslandsmeistari í Olís-deild kvenna í handbolta annað árið í röð og í 22. sinn í sögu félagsins þegar að liðið lagði Val, 26-22, í fjórða leik liðanna í úrslitarimmunni. Einvígið vann Fram, 3-1.

Eftir bikarafhendinguna, þar sem að Framkonur tóku sig til og bútuðu Íslandsmeistarabikarinn í þrennt, kíktu þrír leikmenn liðsins í settið í Seinni bylgjunni sem sendi beint út frá Framhúsinu.

Þetta voru þær Þórey Rósa Stefánsdóttir, Karen Knútsdóttir og Steinunn Björnsdóttir. Þórey Rósa og Karen voru að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en Steinunn varð meistari í fyrra með Fram og var svo á lokahófi HSÍ útnefnd besti leikmaður að mati þjálfara, leikmanna og besti varnarmaðurinn.

Steinunn var svo kjörin besti leikmaður úrslitakeppninnar að þessu sinni sem er ótrúlegt í ljósi þess að hún kom aftur eftir barnsburð á nýju ári en hún spilaði sinn fyrsta leik eftir óléttuna tæpum mánuði eftir að hún fæddi barnið.

„Þú missir ekkert út besta leikmanninn og heldur þér á flugi,“ sagði Karen Knútsdóttir um byrjun Fram í deildinni þar sem liðið fór hægt af stað. „Það var geggjað að fá hana inn. Það hlýtur að vera eitthvað heimsmet að spila 27 dögum eftir fæðingu,“ sagði Karen um línu- og varnarmanninn sem sat henni við hlið.

„Hún lætur okkur allar líta mjög vel út,“ bætti Þórey Rósa Stefánsdóttir við en allt viðtalið við Íslandsmeistarana þrjá má sjá í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Karen vann loksins þann stóra

Fram er Íslandsmeistari í handbolta í kvennaflokki eftir sigur á Val í gær. Með því tókst Fram að verja titilinn og vinna um leið 22. meistaratitilinn í sögu félagsins. Seigla Fram undir lok leiksins skilaði þeim sigri.

Steinunn mikilvægasti leikmaðurinn

Steinunn Björnsdóttir, varnar- og línumaður Fram, var valinn mikilvægasti leikmaður í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×