Handbolti

Þjálfari ÍBV: Árás starfsmanns HSÍ sennilega haft áhrif á aðra starfsmenn HSÍ

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnar segir sínum mönnum til.
Arnar segir sínum mönnum til. vísir/eyþór
Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, vandar Handknattleikssambandi Íslands, HSÍ, ekki kveðjurnar í pistli á Facebook í morgun.

Arnar er afar ósáttur við að leikmaður hans, Magnús Stefánsson, hafi fengið tveggja leikja bann fyrir brot í leik ÍBV og Hauka á dögunum.

Þjálfarinn bendir á að Magnús hafi leikið yfir 500 leiki á ferlinum og aldrei fengið rautt spjald áður.

„Það er því með ólíkindum að þegar Maggi Stef fær sitt fyrsta beina rauða spjald skuli HSÍ dæma hann í tveggja leikja bann og það að mér vitandi, fyrstan af öllum í Olís deild karla þetta árið fyrir brot. Þið vitið Olísdeildinni þar sem spilaður er handbolti og einn sló annan í punginn um daginn og fékk einn leik í bann! Deildin þar sem við höfum fengið að sjá þau nokkur rauðu spjöldin eftir að menn hafi farið í andlitið á andstæðingum sínum og í fæstu tilfellum fengið bann,“ skrifar Arnar í pistli sínum.

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, lét Magnús heyra það á dögunum eftir leik ÍBV og ÍR. Sakaði Magnús um að meiða menn viljandi og Arnar ýjar að því að orð Bjarna hafi haft áhrif á HSÍ. Bjarni er þjálfari 20 ára landsliðs Íslands og því á launaskrá hjá HSÍ.



„Sennilega hefur þessu árás starfsmanns HSI haft áhrif á aðra starsmenn HSÍ því dómarar leiksins á þriðjudaginn mátu það þannig að Maggi hafi kýlt annan leikmann á kjaftinn með krepptum hnefa! Sem er engan veginn hægt að sjá á upptökum af leiknum þó horft sé á klippurnar 1.000.000 sinnum.

Gæti verið að ágætir dómarar leiksins hafi verið undir áhrifum af ummælum samstarfsaðila síns innan HSÍ? Ég held það og sennilega þekkja þeir ekki sögu Magnúsar betur, svo ungir eru þeir. Magnús fer klárlega með hendina í andlitið á leikmanninum og átti skilið að fá rautt spjald en með krepptum hnefa, aldrei! Og með þeim tilgangi að meiða leikmanninn, aldrei, Maggi er ekki þannig leikmaður og hefur aldrei verið,“ skrifar Arnar en færsluna má sjá í heild hér að neðan.




Tengdar fréttir

Einum leik bætt við bann Magnúsar

Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann eftir að hann fékk rautt spjald gegn Haukum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×