Handbolti

Aron Rafn: Munaði litlu að ég færi í Haukaklefann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður ÍBV í Olís-deild karla í handbolta, átti mjög góðan leik og varði 37 prósent skotanna sem að hann fékk á sig í endurkomu sigri Eyjamanna gegn Haukum í undanúrslitum deildarinnar í gærkvöldi.

Haukar voru 15-9 yfir í hálfleik en ÍBV sneri taflinu við í seinni hálfleik og vann þriggja marka sigur. Aron var einnig frábær í fyrsta leiknum þar sem að hann varði ríflega 40 prósent skotanna sem að hann fékk á sig.

Aron Rafn er uppalinn hjá Haukum og hafði aldrei spilað fyrir annað íslenskt félag áður en að hann kom heim úr atvinnumennsku síðasta sumar og gekk í raðir Eyjamanna. Hann viðurkennir að það sé mjög sérstakt að spila á móti Haukunum á sínum gamla heimavelli.

„Það er mjög skrítið. Það skrítnasta við þetta er hvað gestaklefinn er lítill. Það er rosalega þröngt þar inni. Ég man líka að Siggi Eggerts sagði einu sinni að það væri aldrei sápa í gestaklefanum. Ég er búinn að finna fyrir því líka,“ segir Aron Rafn en hann kom í settið hjá Seinni bylgjunni í gærkvöldi eftir leikinn.

„Það er rosalega skrítið að spila hérna á móti mínum gömlu félögum og sjá alla þessa áhorfendur á móti mér. Það hvetur mig samt bara meira áfram.“

Aron Rafn segir að litlu munaði að hann hefði farið í klefann hjá Haukunum þegar að hann mætti þeim fyrst á Ásvöllum síðasta haust. „Næstum því. Ég fór upp stigann en labbaði svo aftur niður,“ segir Aron Rafn Eðvarðsson.

Allt viðtalið við Aron úr Seinni bylgjunni í gærkvöldi má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×