Breska lággjaldaflugfélagið EasyJet hefur lánað íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Dohop 2,25 milljónir evra, jafnvirði 279 milljóna króna. Flugfélagið getur breytt láninu í 15 prósenta hlut í Dohop við lok lánstímans. Þetta staðfestir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.
„EasyJet á í nánu samstarfi við Dohop. Flugfélagið býður upp á vöruna Worldwide by EasyJet sem aðstoðar viðskiptavini við að finna tengiflug í gegnum önnur flugfélög. Tæknin er knúin af Dohop og EasyJet lítur á þetta verkefni sem lykilstef í vexti félagsins til framtíðar,“ segir Davíð í samtali við Markaðinn sem bendir á að miðað við farþegafjölda sé EasyJet áttunda stærsta flugfélag í heimi.
Starfsmenn Dohop séu um 35. Að hans sögn liggur tvennt til grundvallar fjárfestingunni í Dohop. Annars vegar sé EasyJet að tryggja að nýsköpunarfyrirtækið hafi fjárhagslegt bolmagn til að takast á við krefjandi verkefni fyrir flugfélagið. Hins vegar sé um stórt fjárfestingartækifæri að ræða sem þeir vilji taka þátt í.
Rætur Dohop liggja í að finna hagkvæmustu flugfargjöldin fyrir viðskiptavini í gegnum netið.
„Á þeim markaði er hart barist. Í gegnum þá vinnu bjuggum við til tækni sem enginn annar í heiminum býður upp á og hentar vel fyrir lággjaldaflugfélög sem vilja fara í samstarf við önnur flugfélög um að finna tengiflug. Dohop stendur frammi fyrir áhugaverðu tækifæri og er áhersla fyrirtækisins nú meira á því sviði þótt áfram verði boðið upp á flugleit á vefnum okkar. Við erum í viðræðum við um 100 flugfélög í fimm heimsálfum um samstarf. Núna erum við með einn viðskiptavin á þessu sviði en reiknum með að þeir verði fjölmargir í framtíðinni.“
