Politico hefur eftir núverandi og fyrrverandi embættismönnum hjá Umhverfisstofnuninni (EPA) að frestun Scott Pruitt, sem sagði af sér sem forstjóri EPA í gær, á birtingu skýrslu með niðurstöðunum hafi verið liður í herferð hans og Trump-stjórnarinnar til þess að grafa undan sjálfstæðum vísindarannsóknum stofnunarinnar á heilsufarsáhrifum eiturefna.
Formaldehýð sé eitt mest notaða efnið í Bandaríkjunum. Það er notað í unnum viði í húsgögnum og húsbúnaði en einnig berst það út í loftið frá hreinsunarstöðvum. Niðurstöður vísindamanna EPA gætu þýtt að reglur um notkun formaldehýðs yrðu hertar. Þær gætu jafnframt orðið grundvöllur hópmálsókna gegn framleiðendum efnisins.
Drög að skýrslunni voru tilbúin aðeins nokkrum dögum áður en Trump tók við sem forseti í byrjun síðasta árs. Pólitískt skipaðir stjórnendur stofnunarinnar hafi síðan dregið lappirnar til þess að tefja fyrir birtingu hennar. Þeir hafa bannað starfsmönnum stofnunarinnar að hefja yfirlestur á drögunum án þeirra leyfis og frestað fundum um framvindu hennar.
Undir stjórn Pruitt hefur Umhverfisstofnunin ítrekað tekið sér stöðu með fyrirtækum og iðnaði sem stofnuninni er ætlað að hafa eftirlit með. Varð Pruitt tíðrætt um efnahagsleg áhrif ákvarðana EPA fremur en umhverfisleg áhrif.
Málafylgjumaður kolaiðnaðarins tekur við
Pruitt sagði af sér í gær eftir röð hneykslismála. Aðstoðarforstjórinn Andrew Wheeler tekur tímabundið við af Pruitt sem starfandi forstjóri en ekki er enn ljóst hvort hann tekur varanlega við embættinu eða hvort Trump forseti skipi annan forstjóra.Wheeler vann áður sem málafylgjumaður fyrir kolafyrirtæki en hann starfaði einnig fyrir umhverfisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings undir Jim Inhofe, þingmanni Repúblikanaflokksins, og þekktum afneitara loftslagsvísinda. Inhofe reyndi á sínum tíma að tefja fyrir mati EPA á áhrifum formaldehýðs á heilsu fólks.
Búist er við því að Wheeler taki upp þráðinn frá Pruitt og haldi áfram að afnema reglur sem er ætlað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftlagsbreytingum og draga úr mengun í lofti og í vatni.