Handbolti

Grótta bætir við sig öflugri skyttu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Reynir Gunnlaugsson er mættur á Nesið.
Jóhann Reynir Gunnlaugsson er mættur á Nesið. mynd/grótta
Stórskyttan Jóhann Reynir Gunnlaugsson er búinn að semja við Gróttu í Olís-deild karla í handbolta en hann gengur í raðir liðsins frá Randers í Danmörku.

Jóhann Reynir er uppalinn Víkingur og spilaði þar fyrstu ár ferilsins í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins en hann fór svo til Danmerkur og spilaði með Lemvig og nú síðast Randers.

Hann spilaði síðast í Olís-deildinni með Víkingi veturinn 2015-2016 og var þá lang markahæsti leikmaður liðsins með 114 mörk í 22 leikjum. Hann er mikil markavél.

Þetta eru góð tíðindi fyrir Gróttuna sem hefur misst mikinn mannskap eftir síðustu leiktíð þar sem að liðið hafnaði í níunda sæti deildarinnar.

Grótta er búin að missa nokkra lykilmenn á borð við Júlíus Þóri Stefánsson, Pétur Árna Hauksson og Ásmund Atlason. Á móti, auk Jóhanns, eru komnir þeir Leonharð Þorgeir Harðarson á láni frá Haukum og Alexander Jón Másson frá Val.

Jóhann Reynir ef af miklu íþróttakyni en faðir hans er ofurhlauparinn Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, sveitastjóri í Borgarbyggð, og systir hans er María Rún Gunnlaugsdóttir sem hefur verið ein af fremstu frjálsíþróttakonum landsins um árabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×