Refsiaðgerðirnar tóku aftur gildi í kjölfar þess að Trump ákvað að segja Bandaríkin úr kjarnorkusamningnum sem heimsveldin gerðu við Íran árið 2015 fyrr á þessu ári. Enn harðari aðgerðir sem beinast gegn olíuútflutningi Írana taka gildi í nóvember að óbreyttu, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Hótanir Trump gætu aukið enn á spennuna í samskiptum Bandaríkjanna við hefðbundnar bandalagsþjóðir í Evrópu. Evrópusambandið hefur sagst ætla að halda tryggð við kjarnorkusamninginn og verja fyrirtæki sem eiga í lögmætum viðskiptum við Íran.
„Hver sem á í viðskiptum við Íran mun EKKI eiga í viðskiptum við Bandaríkin,“ tísti Trump í morgun en hann er nú í fríi í golfklúbbi sínum. Hann hefur nýtt tímann til að fara mikinn á uppáhaldssamfélagsmiðli sínum um hin ýmsu málefni.
Sagði hann að refsiaðgerðirnar gegn Írönum nú yrðu þær ströngustu sem nokkru sinni hefðu verið lagðar á.
„Ég fer fram á HEIMSFRIÐ, hvorki meira né minna!“ hrópaði forsetinn á Twitter.
The Iran sanctions have officially been cast. These are the most biting sanctions ever imposed, and in November they ratchet up to yet another level. Anyone doing business with Iran will NOT be doing business with the United States. I am asking for WORLD PEACE, nothing less!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 7, 2018