Handbolti

Fimmfaldur Íslandsmeistari inn í þjálfaralið Hauka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harpa Melsteð með Þorgeiri Haraldssyni formanni handknattleiksdeildar Hauka.
Harpa Melsteð með Þorgeiri Haraldssyni formanni handknattleiksdeildar Hauka. Mynd/Haukar
Haukar hafa endurheimt sigursælustu handboltakonuna í sögu félagsins en hún er þó ekki mætt til að spila með liðinu í Olís dield kvenna heldur að hjálpa ungu liði Hauka að verða betra.

Harpa Melsteð er nú komin inn í þjálfarateymi meistaraflokks kvenna hjá Haukum. Harpa kemur inn sem styrktar- og sjúkraþjálfari liðsins og verður jafnframt annar aðstoðarþjálfari liðsins. Þetta kemur fram á heimasíðu Hauka.

Harpa er fyrrverandi fyrirliði meistaraflokks kvenna hjá Haukum pg auk þess er hún sigursælasti leikmaður sögunnar hjá kvennaliði Hauka.

Á ferli sínum sem leikmaður vann Harpa tólf stóra titla með Haukum en hún varð fimm sinnum Íslandsmeistari, fjórum bikarmeistari og þrisvar sinnum deildarmeistari.

„Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikill liðsstyrkur það er að fá Hörpu inn í starfið þar sem að hún mun miðla af mikilli reynslu sinni til hins unga leikmannahóps meistaraflokks kvenna,“ eru lokaorðin í fréttinni á heimasíðu Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×