Hagnaður Samskipa á Íslandi nam tæplega 1,9 milljónum evra, jafnvirði 232 milljóna króna, á síðasta ári og dróst saman um 42 prósent frá fyrra ári þegar hann var tæpar 3,2 milljónir evra. Mestu munaði um lægri fjármunatekjur en þær voru 662 þúsund evrur í fyrra borið saman við 4,3 milljónir evra árið áður.
Samkvæmt nýbirtum ársreikningi flutningafélagsins námu flutningstekjur þess 175,5 milljónum evra, sem jafngildir 21,8 milljörðum króna, í fyrra og jukust um 10 prósent á milli ára. Hagnaður Samskipa fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta var jafnframt 4,6 milljónir evra í fyrra og tvöfaldaðist hann á milli ára.
Samskip átti eignir upp á 62,4 milljónir evra í lok síðasta árs en á sama tíma var bókfært virði eiginfjár og víkjandi lána félagsins 22,6 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið því um 36 prósent.
