Repúblikanar ætla að halda því til streitu að kosið verði um hæfi Brett Kavanaugh hæstaréttardómaraefni Donalds Trump Bandaríkjaforseta til að gegna embætti dómara við Hæstarétt. Greiða á atkvæði um skipan hans á fimmtudaginn.
Kona steig nýverið fram undir nafni og lýsti því sem hún segir árás Kavanaugh í viðtali við Washington Post. Hún heitir Christine Blasey Ford og er prófessor í sálfræði í Kaliforníu. Árásin segir hún að hafi átt sér stað í unglingasamkvæmi í Maryland-ríki snemma á 9. áratug síðustu aldar.
Í frétt Politico um málið kemur fram að tilnefning hans í dómaraembætti verði alls ekki dregin til baka. Þvert á móti kemur fram að repúblikanar muni halda henni til streitu og gefa ekkert eftir.
Demókratar í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings höfðu vakið athygli á ásökunum um að Kavanaugh hefði brotið á ónafngreindri stúlku þegar hann var á framhaldsskólaaldri. Vísuðu þeir málinu til alríkislögreglunnar FBI til rannsóknar.
