Handbolti

Jóhann Birgir: Ég bíð eftir þessum leikjum

Benedikt Grétarsson skrifar
Jóhann og Heimir Óli eigast við.
Jóhann og Heimir Óli eigast við. vísir/ernir
„Þetta eru leikirnir sem maður bíður eftir að spila,“ sagði Jóhann Birgir Ingvarsson leikmaður FH eftir 29-29 jafntefli liðsins gegn erkifjendunum í Haukum.

Jóhann var frábær í leiknum og skoraði níu mörk í aðeins 12 skotum. Jóhann skoraði m.a. jöfnunarmark FH í kvöld.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson byrjaði í skyttustöðunni vinstra megin en náði sér engan veginn á strik. Jóhann kom hins vegar mjög sterkur inn og skoraði síðustu fjögur mörk liðins í kvöld.

„Ég er ekkert óvanur að byrja á bekknum en maður verður að grípa tækifærið þegar það gefst. Það eru margir góðir leikmenn farnir úr liðinu.”

„FH spilar samt þannig handbolta að við leitum alltaf að besta færinu og ég er ekkert að fara að eyðileggja það með einhverri markagræðgi.  Kannski er þetta tímabilið til að stíga upp og taka næsta skref.“

Jóhann er uppalinn FH-ingur og hann segir það hafa skipt máli í þessum leik.

„Það skiptir auðvitað máli!,“ sagði Jóhann brosandi og tekur svo undir orð blaðamanns að FH hafi ágætt tak á Haukum að Ásvöllum en Haukar hafa ekki unnið FH á heimavelli í þrjú ár.

„Þetta er bara frábær staður og gaman að spila hérna, þó ég segi sjálfur.“

FH tekur á móti Fram í næstu umferð og Jóhann er bjartsýnn á gott gengi í Kaplakrika.

„Við höldum bara áfram. Við eigum frábæra áhorfendur og það verður virkilega gaman að spila fyrir framan þá,“ sagði hetja FH að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×