Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 21-37 │Stjörnumenn niðurlægðir á heimavelli

Svava Kristín Grétarsdóttir í TM höllinni skrifar
vísir/bára
Valur niðurlægði Stjörnuna í Garðabænum í kvöld, er liðið vann 16 marka sigur, 21-37.  Stjarnan gaf Val aldrei leik og léku gestirnir sér að þeim. Staðan í hálfleik, 9-18. 

Það var kannski ekki að sjá í upphafi í hvað stefndi en staðan eftir 6 mínútur, 3-4, Val í vil. Eftir það kom 0-6 kafli frá gestunum og ekki aftur snúið fyrir Stjörnuna. Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé í stöðunni 3-7 og svo aftur í stöðunni 3-10 enda strákarnir hans ekki komið boltanum í netið frá síðasta leikhléi. Valur fór að rúlla leikmönnum og Stjarnan komast aðeins inní leikinn en aldrei nóg til að ógna leiknum í fyrri hálfleik. 

Það var allt með sama móti í seinni hálfleik. Valur hélt sinni forystu en þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum gaf Valur aðeins eftir og náði Stjarnan þá 4-0 kafla, staðan 17-25. Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, tók þá leikhlé til að stilla sína menn inn áður en þeir misstu leikinn niður. Gestirnir frá Hlíðarenda komu ferskir til baka og voru 12 mörkum yfir þegar 7 mínútur voru til leiksloka, 18-30. Leiknum lauk svo með 16 marka sigri Valsmanna, 21-37. 

Af hverju vann Valur?

Til að byrja með þá mættu Stjörnumenn ekki til leiks. Einn lélegasti handboltaleikur sem þetta lið hefur spilað. Það má þó ekkert taka af Valsmönnum sem eru ógnasterkir og sýndu það allt frá upphafi leiks. 

Hverjir stóðu upp úr?

Valsliðið í heild sinni, það er erfitt að taka einhvern einn út eftir svona leik. Lykilmenn fengu að hvíla í dag og var innkoma ungu strákana mjög góð. Ásgeir Snær Vignisson var t.a.m flottur í dag og skoraði glæsilegt mark úr lokaskoti leiksins. 

Hvað gekk illa? 

Það gekk allt illa í leik Stjörnunnar. Það er áhyggjuefni fyrir Rúnar hvernig leikmenn mættu til leiks. Vörn, sókn og markvarsla, allt var þetta ábótavant. 

Hvað er næst?

Framundan er tveggja vikna hlé á Olís-deildinni en í 4. umferð mætir Valur-ÍR og Stjarnan mætir FH. 

 

Rúnar: Þetta er lélegasta frammistaða sem ég hef séð

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, segir það áhyggjuefni hvernig leikmenn mæta til leiks. 

„það gerist ekki neitt, það er vandamálið.“ sagði Rúnar aðspurður um það hvað gerðist í kvöld. 

„Þetta er lélegasta frammistaða sem ég hef séð mitt lið spila, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum að minnka þetta niður í 7 mörk og klaufaskapur að hafa endað þetta þá í 16 mörkum, en bara ógeðslega lélegt frá A-Ö.“ 

„Við gáfum þeim aldrei leik, miðað við hvernig við mættum til leiks. Það stóð ekki steinn yfir steini. Menn gátu ekki gefið einföldustu sendingar milli manna, einföldustu leikkerfi virkuðu ekki. Við vorum búnir að undirbúa það og vissum að þeir væru aggressívir og sterkir í vörn, en samt voru menn ekki viðstaddir.“ sagði Rúnar. 

Það vantaði lykilmenn í lið Stjörnunnar í dag, líkt og í síðustu leikjum. Ari Magnús Þorgeirsson, Egill Magnússon og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson eru fjarri góðu gamni vegna meiðsla. 

„Það kemur maður í manns stað, þótt það vanti Ara Magnús, Egil og Bubba í markið þá var það ekki vandamálið heldur hvernig við mættum til leiks eftir að hafa undirbúið þennann leik alla vikuna.“

Rúnar talaði um það fyrir leiktíð að hann væri ánægður ef liðið væri búið að stilla sig saman fyrir áramót og virtist ekki búast við miklu í upphafi móts, þetta var þó ekki það sem hann bjóst við.  

„Ég bjóst meira við því að menn myndu standa meira í lappirnar, þetta er núna annar leikurinn af þremur þar sem menn eru gjörsamlega hauslausir. Þetta veldur mér virkilegum áhyggjum og veit ég ekki hvort að tveir, þrír leikmenn séu að fara að bjarga því.“ sagði Rúnar að lokum. 

 

Guðlaugur: Við nýttum okkur þeirra veikleika

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með sína stráka eftir frammistöðu kvöldsins. Þjálfararnir gátu leyft öllum leikmönnum að spila í dag.

„Við vorum bara með góðan heildar leik í dag. Byrjuðum sterkt varnarlega, agaðir sóknarlega og þannig náðum við að keyra í bakið á þeim. Það skóp grunninn í fyrri hálfleik, við vorum alveg með þá. Frábært að fá svona leik og jákvætt að við missum ekki dampinn í seinni hálfleik þrátt fyrir að vera með svona gott forskot„ 



„Það vantar nátturlega þó nokkra menn í Stjörnuliðið, við vissum það og nýttum okkur það.“ 

Daníel Freyr Andrésson átti góðan leik í marki Vals. Guðlaugur var ánægður með hans framlag í rammanum í dag.

„Hann var mjög góður í 60 mínútur, hann var ekki búinn að skila því í deildinni hingað til svo þetta var frábært.“

Valur á sex leikmenn í b-landsliðs hópi Guðmundar Guðmundssonar sem kemur saman í vikunni. Þeir Agnar Smári Jónsson, Róbert Aron Hostert, Alexander Júlíusson, Daníel Freyr Andrésson, Vignir Stefánsson og Ýmir Þór Gíslason.

„Það er mjög gott að eiga svona marga leikmenn þarna og sýnir starfið okkar og að við séum með góðan hóp. Við nýtum pásuna sem er framundan bara vel.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira