Handbolti

Bjarni: Færum þeim leikinn á silfurfati með óþolandi ákvarðanatöku

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Origo höllinni Hlíðarenda skrifar
Bjarni var vægast sagt ósáttur í leikslok
Bjarni var vægast sagt ósáttur í leikslok vísir/bára
Bjarni Fritzson var mjög óánægður með spilamennsku lærisveina sinna í ÍR sem töpuðu fyrir Val í Olísdeild karla í kvöld. Eftir að jafnt var í hálfleik endaði leikurinn með sex marka sigri Vals.

„Óafsakanleg ákvarðanataka á köflum í leiknum varð okkur að falli í þessum leik,“ sagði Bjarni í leikslok. Leikurinn endaði með 28-22 sigri Vals sem fer á toppinn í deildinni. ÍR er í tíunda sæti.

„Að leikmenn skuli bjóða liðsfélögum sínum það að vera í endalausum sénsatökum sem kostuðu okkur hraðaupphlaup í bakið á móti svona sterku liði. Gjörsamlega óþolandi.“

ÍR byrjaði seinni hálfleikinn mjög illa, fyrstu fimmtán mínúturnar fóru 8-2 fyrir Val. Þeir sýndu karakter og komu til baka, en köstuðu leiknum svo aftur frá sér í lokin.

„Við erum að færa þeim þennan leik á silfurfati með óþolandi slæmum sénsalínusendingum og ákvarðanatöku í skotum. Þegar við erum að láta boltann ganga erum við að skapa okkur fullt af færum.“

„Við erum að taka allt of snemma óörugg skot og rembast við að troða línusendingar sem eru engan veginn fríar.“

Hvað þarf Bjarni að gera til þess að laga leik sinna manna?

„Það er svo margt í lagi í leiknum hjá okkur. Í leiknum hjá okkur er fullt í góðu standi. Ég þarf bara að skerpa á aganum hjá leikmönnunum. Ég þarf að taka fastari tökum á því. Það er það sem verður okkur að falli í dag og varð okkur að falli á móti Aftureldingu.“

„Þetta er það sem sker á milli liða sem eru allt í lagi og liða sem eru frábær,“ sagði Bjarni Fritzson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×