Umfjöllun og viðtöl: Valur - ÍR 28-22 | Valsmenn á toppinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Origo-höllinni skrifar
vísir/Bára
Valsmenn unnu sannfærandi 28-22 sigur á ÍR í fjórðu umferð Olísdeildar karla í handbolta í dag. Jafnt var með liðunum í hálfleik.

Fyrri hálfeikur var mjög jafn. Gestirnir úr Breiðholtinu náðu mest þriggja marka forskoti en þegar flautað var til hálfleiks var jafnt með liðunum.

Breiðhyltingar byrjuðu seinni hálfleikinn hræðilega og skoruðu aðeins tvö mörk á fimmtán mínútum á meðan Valsmenn gerðu átta. Gestirnir náðu að koma sér aftur inn í leikinn en náðu þó aldrei að komast nær en tveimur mörkum frá Valsmönnum.

Heimamenn náðu aftur betri kafla undir lokinn, leikurinn endaði með sex marka sigri sem var í raun aldrei í hættu eftir upphaf seinni hálfleiksins.

vísir/bára
Af hverju vann Valur?

Valsmenn eru með frábært lið og sýndu það. Þeir spiluðu mjög góðan varnarleik í dag, markvarslan var betri í Valsliðinu og gæðin í sóknarleiknum kláruðu leikinn.

Það verður samt að segjast að ÍR-ingar köstuðu leiknum frá sér með þessari slæmu byrjun á seinni hálfleiknum, ef þeir hefðu gert betur þar er aldrei að vita hver niðurstaðan hefði orðið.

Hverjir stóðu upp úr?

Magnús Óli Magnússon átti mjög góðan leik, var næst markahæstur ásamt því að fiska nokkur víti og gera vel í vörninni. Anton Rúnarsson tók öll víti Vals í leiknum, þau voru átta talsins, og hann kláraði þau öll af öryggi. 

Í liði ÍR bar Kristján Orri Jóhannsson af og Pétur Árni Hauksson var einnig öflugur. 

Hvað gekk illa?

Eins og gefur að skilja gekk sóknarleikur ÍR ekki vel. Að enda í 22 mörkum er ekki hræðilegt, en það er klárlega ekki nógu gott og þeir fóru oft virkilega illa með sóknirnar sínar.

Hvað gerist næst?

Það er langt í næsta leik þessara liða. Valur sækir Selfoss heim á miðvikudaginn eftir rúma viku, 17. október, vegna þátttöku Selfoss í Evrópukeppninni. Leikur ÍR í fimmtu umferðinni er ekki á dagskrá fyrr en 1. nóvember, aftur vegna þátttöku andstæðingsins, FH, í Evrópukeppni. Þeir spila hins vegar leik fyrir það, þeir fara til Akureyrar og mæta KA í sjöttu umferð laugardaginn 20. október.

vísir/bára
Gulli: Ánægður með hvernig við mættum hraða ÍR

„Vörn og markvarsla í upphafi seinni hálfleiks, númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Guðlaugur Arnarsson þjálfari Vals aðspurður hvað hafi skilað Val sigrinum.

„Karkter í liðinu í allan dag. ÍR-ingar mættu mjög einbeittir og keyrðu vel á okkur í fyrri hálfleik. Við vorum kannski aðeins út úr karakter fyrri hlutann af fyrri hálfleik. Um leið og við náum að átta okkur á okkar hlutum þá sigldum við þessu rólega heim.“

„Mér fannst þetta góður leikur, hörku leikur á milli tveggja góðra liða. ÍR-ingarnir eru feykilega öflugir með mikið tempó og hraða sem er rosalega erfitt að eiga við. Ég er ánægður með hvernig við mættum þeim hraða í dag og hvernig við tækluðum okkar varnarleik og aga sóknarlega.“

Aðspurður hvað væri það besta úr leik hans manna sló Guðlaugur á létta strengi: „Stjórnun þjálfaranna.“

vísir/bára
Bjarni: Færum þeim leikinn á silfurfati

„Óafsakanleg ákvarðanataka á köflum í leiknum varð okkur að falli í þessum leik,“ sagði Bjarni í leikslok. Leikurinn endaði með 28-22 sigri Vals sem fer á toppinn í deildinni. ÍR er í tíunda sæti.

„Að leikmenn skuli bjóða liðsfélögum sínum það að vera í endalausum sénsatökum sem kostuðu okkur hraðaupphlaup í bakið á móti svona sterku liði. Gjörsamlega óþolandi.“

ÍR byrjaði seinni hálfleikinn mjög illa, fyrstu fimmtán mínúturnar fóru 8-2 fyrir Val. Þeir sýndu karakter og komu til baka, en köstuðu leiknum svo aftur frá sér í lokin.

„Við erum að færa þeim þennan leik á silfurfati með óþolandi slæmum sénsalínusendingum og ákvarðanatöku í skotum. Þegar við erum að láta boltann ganga erum við að skapa okkur fullt af færum.“ 

„Við erum að taka allt of snemma óörugg skot og rembast við að troða línusendingar sem eru engan veginn fríar.“

Hvað þarf Bjarni að gera til þess að laga leik sinna manna?

„Það er svo margt í lagi í leiknum hjá okkur. Í leiknum hjá okkur er fullt í góðu standi. Ég þarf bara að skerpa á aganum hjá leikmönnunum. Ég þarf að taka fastari tökum á því. Það er það sem verður okkur að falli í dag og varð okkur að falli á móti Aftureldingu.“

„Þetta er það sem sker á milli liða sem eru allt í lagi og liða sem eru frábær,“ sagði Bjarni Fritzson.

vísir/bára
Róbert: Vorum gáfaðari í seinni hálfeik

„Þetta var ágætis leikur. Við spiluðum góðan varnarleik og ég er virkilega ánægður með að vinna þetta sterka lið, þeir eru mjög góðir,“ sagði Róbert Aron Hostert í leikslok.

„Eftir ágætis pásu þá er gott að byrja aftur og vinna.“

Róbert tók undir það að kaflinn í byrjun seinni hálfleiks hafi klárað þetta fyrir Valsmenn. „Við byrjuðum að taka skotin okkar og vorum aðeins gáfaðari. Varnarleikurinn hélt, Danni fór að verja.“

Eftir góða byrjun á mótinu kom tveggja vikna hlé vegna æfinga B-landsliðsins, hóps sem inniheldur bara leikmenn úr Olísdeildinni. Fannst Róberti hléið truflandi?

„Nei, nei. Meiri æfingar en auðvitað vill maður alltaf vera að spila. Þetta skiptir engu máli.“

vísir/bára
Kristján: Vorum allt of óagaðir

„Við vorum allt of óagaðir sóknarlega. Það er eiginlega það sem fer með leikinn,“ sagði Kristján Orri Jóhannsson. Hann var markahæstur í liði ÍR með átta mörk.

„Við vorum að reyna allt of mikið að troða 50/50 boltum inn á línu, taka óörugg skot og það er það helsta sem fer með leikinn af okkar hálfu.“

„Kaflinn í upphafi seinni hálfleiks er þar sem við erum sérstaklega óagaðir. Einhvern veginn náum við að koma aðeins til baka og gera leik úr þessu, en svo föllum við aftur í sömu gildruna, erum allt of óagaðir.“

Spurður hvort það væri þó ekki hægt að taka endurkomuna í seinni hálfeik sem jákvæðan punkt var svar Kristjáns einfalt.

„Kannski, mér er samt bara drullu sama um hana.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira