Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Stjarnan 31-27 | Góður endasprettur tryggði Haukum sigur

Svava Kristín Grétarsdóttir í Schenker-höllinni skrifar
Atli Már Báruson, leikmaður Hauka.
Atli Már Báruson, leikmaður Hauka. vísir/daníel
Haukar höfðu betur gegn Stjörnunni í kaflaskiptum leik á Ásvöllum í kvöld, 31-27. Eftir heldur tilkomulítinn fyrri hálfleik, leiddu heimamenn með einu marki, 14-13. 

Leikurinn byrjaði rólega en staðan orðinn 3-2 þegar 10 mínútur voru liðnar af leiknum. Ásgeir Örn Hallgrímsson sótti grimmt í fyrri hálfleik en skoraði aðeins tvö mörk úr 6 skotum. Egill Magnússon, leikmaður Stjörnunnar, átti einnig erfiðan leik framan af.

Sóknarleikur Hauka gekk betur í fyrri hálfleik og þurftu Garðbæingar að hafa meira fyrir sínum mörkum sem skiluðu sér þó og munurinn ekki nema eitt mark þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 14-13. 

Leikur Hauka hrundi svo í upphafi síðari hálfleiks. Stjarnan tók þá öll völd á vellinum og staðan 17-21 eftir fyrri stundarfjórðunginn og heimamenn aðeins skorað þrjú mörk á 15 mínútum. Í stöðunni 19-23 tók Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, sitt annað leikhlé í síðari hálfleik.

Leikurinn breyttist heldur betur eftir það en þá kom inn leikmaður, Atli Már Báruson, sem snéri leiknum við. Atli skoraði 8 mörk á síðasta korterinu og tryggði hann sínum mönnum sigurinn. Lokatölur á Ásvöllum, 31-27. 

Af hverju unnu Haukar? 

Eftir kaflaskiptann leik þá unnu Haukar loka kaflann sem skilaði þeim sigri. Það stefndi ekki mikið í sigur heimamanna á 45. mínútu þegar þeir voru fjórum mörkum undir og aðeins búnir að skora 3 mörk í síðari hálfleik. Atli Már Báruson var leikbreytirinn í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr? 

Eins og fram hefur komið þá var Atli Már Báruson maður leiksins. Skoraði 4 mörk í fyrri hálfleik þar af 3 úr vítum og spilaði lítið sem ekkert. En hann kom svo ferskur inn á loka kaflanum og skoraði 9 mörk í seinni hálfleik. Ásamt Atla þá var Daníel Þór Ingason góður í fyrri hálfleik, hann skoraði í heildina 7 mörk. 

Eftir erfiðan fyrri hálfleik þá átti Egill Magnússon góða innkomu í seinni hálfleik og skoraði að vild. Egill og Sveinbjörn Pétursson, markmaður Stjörnunnar, snéru leiknum Stjörnunni í vil í seinni hálfleik.Bubbi var frábær í markinu í kvöld, með 17 bolta varða en það dugði ekki til sigurs. 



Hvað gekk illa?
 

Báðum liðum gekk illa að halda stöðuleika í leik sínum, hvort sem það var varnar- eða sóknarlega. 



Hvað er næst? 

Það er landsleikjahlé framundan, tveggja vikna frí. En í 7. umferð lítur þetta svona út hjá liðunum, ÍR-Haukar og Stjarnan-Fram.

Rúnar: Við eigum nóg inni

„Mér fannst við ekki spila nægilega vel í fyrri hálfleik en einhvernveginn náðum við að vera bara einu marki undir í hálfleik“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar að leik loknum. 

„Ég var virkilega ánægður með það hvernig við komum út í seinni hálfleikinn og hvernig við spiluðum hann framan af. Við fengum svo tveggja mínútna brottvísun þegar við vorum 4 mörkum yfir og það fjaraði allt alltof fljótt undan okkur þá. Haukar náðu að minnka muninn og við náðum ekkert að stoppa það áhlaup frá þeim.“ sagði Rúnar sem játar því að Atli Már hafi verið þeim erfiður í kvöld. 

„Atli var erfiður já, og allt Hauka liðið, þeir voru þéttir. En við náðum bara ekki að stoppa þetta áhlaup frá þeim og við hættum að skora, þetta snérist bara um það.“ 

„Við settum allt í það að reyna að stoppa þá og jafna leikinn. Þess vegna kannski töpuðum við með fjórum mörkum en ekki tveimur, það skiptir engu máli. Við fáum ekkert útúr þessum leik.“ sagði Rúnar sem segist þó taka eitthvað jákvætt með sér eftir þennann leik

„Við erum búnir að spila þrjá leiki þar sem allt er uppá við. Núna fáum við tveggja vikna frí sem við ætlum að nýta okkur vel, við erum svekktir, við vitum að við getum gert mikið betur og við ætlum að nýta fríið í að bæta okkar leik enn frekar.“ sagði Rúnar að lokum

 



Atli Már: Ásgeir verður að fara að rífa sig í gang

Maður leiksins, Atli Már Báruson, leikmaður Hauka, var ánægður með sigurinn en segir þó að liðið þurfa að bæta sig, sérstaklega varnarlega, en heilt yfir ekki góður leikur hjá þeim í kvöld. 

„Ég man ekkert hvernig fyrri hálfleikurinn var en þeir voru allavega komnir með yfirhöndina í seinni hálfleik. Svo snérist þetta við og öll skot sem við áttum á markið fóru í markið. Andri Scheving, kom líka flottur inn í markið og fór að verja.“ sagði Atli um áhlaupið sem Haukar áttu undir lok leiks

„Þeir eru með gott lið en við höfum alltaf trú á okkur, sérstkalega á heimavelli. Við vorum kannski ekkert stressaðir en við vissum alveg að við þyrftum að spýta aðeins í lófana. Mér fannst við lélegir í vörninni allann leikinn, við þurfum að bæta varnarleikinn hjá okkur og getum vonandi gert það núna á næstu tveimur vikum.“

Atli Már kom gríðalega öflugur inn á síðasta stundarfjórðungnum og skoraði 8 mörk en í heildina skoraði hann 13 mörk í kvöld. 

„Ég hef ekki skotið svona mikið síðan einhverntímann í yngri flokkunum, fínt að fá tvær vikur núna til að jafna mig eftir þetta.“ 

Ásgeir Örn Hallgrímsson þurfti að setjast á bekkinn þegar Atli Már kom inn en Atli er ekki hrifin af þeim skiptum

„Það er hundleiðinlegt, þá þarf ég að spila hægra megin á vellinum. Hann verður að fara að rífa sig í gang.“ sagði Atli að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira