„Við íbúar í Reykhólahreppi og sumarhúsaeigendur skorum á Alþingi og ríkisstjórn að semja strax lög sem heimili Vegagerðinni að bjóða út og hefja framkvæmdir eftir Þ.H. leið á Þjóðveg 60 – frá Kinnarstöðum að Kraká.“
Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku lýsti Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps, þeirri skoðun sinni að sterkari rök væru fyrir því að brúa mynni Þorskafjarðar fremur en að leggja veginn um Teigsskóg. Bændur í sveitinni, sem sjá fram á rask fjögurra bújarða, hafa hins vegar lýst eindreginni andstöðu við brúarlausnina.

Í fyrradag sást að Alþingi var fljótt að bregðast við þegar þingmál var flutt í þágu fiskeldis á Vestfjörðum. Þannig liðu aðeins tæpar níu klukkustundir frá því Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mælti fyrir lagabreytingu á fiskeldislögum, um að heimila rekstrarleyfi til bráðabirgða, þar til það var sent ríkisstjórn sem lög frá Alþingi. Ráðherrann mælti fyrir þingmálinu kl. 14.44, það fór til nefndar og í gegnum þrjá umræður, og var síðan samþykkt klukkan 23.25.
Vegagerðin áformaði í þessari viku að birta mat sitt á því hvað brúarleiðin kostar, í samanburði við Teigsskóg, og hvaða tímaramma hún þyrfti. Birting þeirra upplýsinga frestast hins vegar fram í næstu viku, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.