Síðast sást til Jamal Khashoggi þegar hann fór inn í ræðismannsskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í síðustu viku. Þar er hann sagður hafa ætlað að verða sér úti um skjöl til að geta giftst unnustu sinni. Tyrknesk stjórnvöld hafa sakað Sáda um að hafa myrt Jamal Khashoggi á skrifstofunni og jafnvel bútað lík hans niður.
Þau hafa jafnframt nafngreint fimmtán manns sem þeir telja að hafa verið sendir til Istanbúl að taka blaðamanninn höndum. Khashoggi hefur verið gagnrýninn á stjórnarhætti Mohammeds bin Salmans krónprins sem stýrir nú Sádí-Arabíu. Hann hefur haldið sig í sjálfskipaðri útlegð í Washington-borg í Bandaríkjunum.
Spurningar um hvers vegna Khashoggi var ekki varaður við
Svo virðist sem að bandaríska leyniþjónustan hafi haft njósnir af meintu ráðabruggi Sáda um að taka Khashoggi höndum í Tyrklandi. Washington Post greindi frá því í vikunni en Khashoggi skrifaði meðal annars pistla fyrir blaðið. Nú segir blaðið að bin Salman krónprins hafi sjálfur gefið skipun um aðgerðina.Þær fréttir hafa vakið upp spurningar um hvers vegna Trump-stjórnin hafi ekki varað Khashoggi við að hann gæti verið í hættu staddur. Leyniþjónustan er sögð hafa skyldu til að vara fólk við ef hún telur sig hafa trúverðugar njósnir af slíku.
Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins hefur hafnað því að stjórnvöld þar hafi vitað af hvarfi Khashoggi fyrir fram.

Erfitt að kyngja því að hætta að selja Sádum vopn
Trump forseti hefur ræktað tengsl Bandaríkjanna við Sádí-Arabíu jafnvel meir en flestir forverar hans í embætti. Ríkisstjórn hans hefur stutt hernaðaraðgerðir Sáda í Jemen þrátt fyrir ásakanir um stríðsglæpi og ríkin tvö eru bandamenn í að halda uppi þrýstingi á stjórnvöld í Íran.Bandaríkjastjórn hefur því gengið varlega fram í að gagnrýna stjórnvöld í Ríad vegna hvarfs andófsmannsins. Trump hefur sjálfur aðeins sagst vilja koma til botns í því hvað varð um Khashoggi.
Nokkrir áhrifamiklir þingmenn bæði repúblikana og demókrata hafa aftur á móti þrýst á um aðgerðir og lýst áhyggjum sínum af þeim vísbendingum sem hafa komið fram um sekt stjórnvalda í Sádí-Arabíu. Sumir þeirra hafa jafnvel kallað eftir því að bandarísk stjórnvöld hætti að selja Sádum vopn vegna málsins.
Trump er hins vegar hikandi að ganga svo langt. Í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina lagði hann áherslu á vel efnahagur Sádí-Arabíu gengi.
„Hluti af því er það sem við erum að gera með varnarkerfi okkar og allir vilja þau og hreint út sagt þá held ég að það væri mjög, mjög erfið pilla að kyngja fyrir landið okkar,“ sagði Trump spurður að því hvort til greina kæmi að hætta að selja Sádum vopn ef í ljós kæmi að þeir hefðu myrt Khashoggi.

Þögult samþykki skálkaskjól Sáda
Bandaríska blaðið Politico rekur frásögn af fundi sérfræðinga í utanríkismálum með háttsettum embættismanni Hvíta hússins sem sér um málefni Miðausturlanda. Embættismaðurinn hafi ítrekað lagt áherslu á mikla hagsmuni Bandaríkjanna í Sádí-Arabíu og að Íran væri aðalhættan í heimshlutanum.Þegar embættismaðurinn var spurður sérstaklega um Khashoggi hafi hann borið því við að Bandaríkjastjórn væri enn að reyna að komast til botns í því hvað varð um hann. Margir gesta hans hafi furðað sig á því svari í ljósi fjölda frétta um afdrif blaðamannsins. Embættismaðurinn vildi ekkert gefa upp um hvort Trump-stjórnin myndi láta stjórnvöld í Sádí-Arabíu axla ábyrgð.
Randa Slim, sérfræðingur hjá Miðausturlandastofnuninni í Washington-borg, segir að ríkisstjórn Trump sé að reyna að sópa hvarfi Khashoggi undir teppið. Margir sérfræðingar telja að Hvíta húsið telji Sáda of mikilvæga bandamenn til að þora að styggja þá. Sú nálgun hafi veitt Sádum skálkaskjól til að stunda ýmis konar mannréttindabrot á pólitískum andstæðingum, jafnvel þau sömu og bandarísk stjórnvöld gagnrýna Írani iðulega fyrir.
Bent hefur verið á að Jared Kushner, tengdasonur Trump og einn helsti ráðgjafi, sem hefur farið með málefni sem tengjast Miðausturlöndum fyrir Hvíta húsið eigi náin persónulega tengsl við bin Salman krónprins.