Aukin athygli hefur færst á hatramma orðræðu Trump í garð fjölmiðla og mótherja sinna í stjórnmálum í kjölfar þess að leyniþjónusta Bandaríkjanna stöðvaði bréfsprengjur sem stílaðar voru á Barack Obama, fyrrverandi forseta, Clinton-hjónin og fleira áberandi demókrata. Hefur Trump verið sakaður um að hafa kynt undir ofsa í samfélaginu með fúkyrðum og samsæriskenningum um andstæðinga sína.
Í morgun bárust fréttir af því að veitingastað leikarans Roberts de Niro, sem hefur verið gagnrýninn á Trump, hafi borist möguleg sprengja og Joe Biden, fyrrverandi varaforseta sem hefur verið orðaður við forsetaframboð 2020, sömuleiðis. Mögulegar sprengjur eru því alls níu fram að þessu. Ætlaðir viðtakendur þeirra eiga það sameiginlegt að hafa verið gagnrýnir á Trump og forsetinn hefur ráðist að þeim í ræðu og riti.
Trump virtist reyna að lýsa áhyggjum af sprengjusendingunum í gær og sagði að slíkt ætti ekki heima í bandarísku samfélagi. Á kosningafundi með stuðningsmönnum sínum í gærkvöldi tók forsetinn hins vegar aftur upp gagnrýni sína á fjölmiðla. Sagði hann þá ábyrga fyrir að slá kurteisislegan tón í opinbera umræðu og stöðva „endalausan fjandskap“ með „stöðugri neikvæði“ og „fölskum fréttum“.
Forsetinn hjó í sama knérunn á Twitter í morgun þar sem hann leitaðist enn við að koma ábyrgðinni á núverandi aðstæðum í bandarísku samfélagi yfir á fjölmiðla.
„Mjög stór hluti af [r]eiðinni sem við sjáum í dag í samfélaginu er af völdum viljandi falsks og ónákvæms fréttaflutnings meginstraumsfjölmiðla sem ég vísa til sem falsfrétta. Þetta er orðið svo slæmt og hatursfullt að það er ólýsanlegt. Meginstraumsfjölmiðlar verða að taka sig saman í andlitinu, HRATT!“ tísti forsetinn.
A very big part of the Anger we see today in our society is caused by the purposely false and inaccurate reporting of the Mainstream Media that I refer to as Fake News. It has gotten so bad and hateful that it is beyond description. Mainstream Media must clean up its act, FAST!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) October 25, 2018
Aðeins vika er liðin frá því að Trump kallaði fyrrverandi klámmyndaleikkonu sem segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við hann „hestsfés“ á Twitter. Þá hefur hann ítrekað kallað fjölmiðla „þjóðníðinga“ og sakað pólitíska andstæðinga sína um að vera „heimska“, „lygara“, „mjög óheiðarlegt fólk“ og margt fleira miður fagurt.