Handbolti

Seinni bylgjan: Tumi Steinn er leikstjórnandi sem öll lið þurfa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tumi Steinn hefur byrjað tímabilið af krafti
Tumi Steinn hefur byrjað tímabilið af krafti S2 Sport
Tumi Steinn Rúnarsson snéri aftur á sinn gamla heimavöll um helgina og stýrði Aftureldingu til sigurs gegn Val á Hlíðarenda. Tumi fór frá Val í sumar og hefur blómstrað í Mosfellsbænum.

Sérfræðingar Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport tóku Tuma fyrir í þætti gærkvöldsins. Hann var með átta mörk í 11 skotum og skapaði fjögur færi í leiknum.

„Það hafði eiginlega enginn heyrt um þennan gæja fyrir þetta tímabil,“ sagði Logi Geirsson. „Þetta er rosalegt að koma á sinn heimavöll með dýrasta lið landsins, hann kemur til baka og setur átta mörk og stýrir þessu.“

„Hann er búinn að vera að bæta sig. Hann er orðinn stærri, þyngri, sterkari.“

„Þetta er akkúrat maðurinn sem þarf að vera á milli Elvars og Birkis. Þess vegna eru þeir að blómstra. Ef það væru þrjár skyttur þarna fyrir utan þá sæjum við Aftureldingu eins og hún var í fyrra.“

„Þeir eru vel spilandi með hann á miðjunni.“

„Þetta er leikstjórnandi sem öll lið þurfa. Alvöru leikstjórnandi sem er ekkert endilega að hugsa um að skora, en hann er samt kominn með hátt í fimm mörk að meðaltali í leik. Hrikalega flottur. Þvílík innkoma í deildina.“

Stuðningsmenn Vals gætu einhverjir efast um þá ákvörðun að leyfa Tuma að fara annað í sumar, en Valsliðið er svo vel mannað af sterkum leikmönnum að þjálfarateymi Vals gat ekki lofað Tuma mörgum mínútum.

„Ef þú horfir á Anton, Róbert og Magnús Óla. Þetta eru allt gæjar sem eru búnir að vera í atvinnumennsku og hann nýorðinn 18 ára. Svo er hann bara að bossa deildina. Þetta er bara ótrúlegt,“ sagði Logi.

„Þessi kynslóð sem er að koma, þetta er bara eitthvað annað. Ég skil ekki hvað þeir eru að koma snemma upp.“

Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×