Handbolti

Bjarni Fritzson: Fékk rautt spjald fyrir að sparka í brúsa

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR.
Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR. vísir/bára
KA og ÍR skildu jöfn eftir æsilega lokamínútur í 6.umferð Olís-deildarinnar í KA-heimilinu í kvöld. ÍR-ingar virtust vera að sigla nokkuð þægilegum sigri í hús þar til að KA-menn tóku öll völd á lokamínútunum og náðu að jafna metin tveimur sekúndum fyrir leikslok.

ÍR-ingar voru mjög ósáttir við ákvarðanir dómaranna á þessum lokakafla og fékk Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, að líta rauða spjaldið í leikslok.

Bjarni var þó hinn rólegasti þegar hann mætti í viðtal og fór yfir það hvernig þessi lokakafli horfði við honum.

„Mér sýnist Pétur vera kominn í dauðafæri (í lokasókn ÍR) og það er brotið á honum. Hann nær varla skoti á markið en þeir dæma bara ekki neitt. Ég á ekki orð yfir þetta. Svo sýndist mér vera ólögleg skipting í lokasókninni þeirra en ég er ekki viss. Ég sá það ekki en það bar þess merki. Það skiptir ekki öllu máli,“ sagði Bjarni en afhverju fékk hann rautt spjald?

„Ég fékk rautt spjald fyrir að sparka í brúsa. Ég var svo ósáttur við strákana að við skyldum hafa glutrað þessu niður. Ég var mjög pirraður og sparkaði ágætlega í einhvern brúsa. Ég ræddi ekkert við dómarana í kjölfarið af því,“ sagði Bjarni.

ÍR-ingar voru einnig ósáttir við annað atvik þegar Bjarni taldi sig hafa verið búinn að biðja um leikhlé áður en ÍR fór í skot. Þeir fengu hins vegar ekki að taka leikhléið þá og KA-menn fengu boltann. Þrátt fyrir þessi þrjú stóru atvik segir Bjarni að ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá liðinu sínu.

„Fyrst og fremst erum við ósáttir við okkur sjálfa. Við köstum þessu frá okkur sjálfir og verðum að taka ábyrgð á því.“

„Við vorum rosalega óagaðir fyrstu 15 mínúturnar og þeir skoruðu í hverri sókn. Svo náðum við að loka vörninni og spilum í heildina góðan varnarleik. Við nærðumst á töpuðu boltunum þeirra en ráðum svo kannski ekki við spennustigið hérna í lokin,“ sagði Bjarni að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×