Aldrei hafa fleiri byggingar orði eldi að bráð í Kaliforníu en í kjarreldunum þar nú. Camp-kjarreldurinn hefur orðið níu manns að bana og eyðilaggt fleiri en 6.700 íbúðarhús og atvinnuhúsnæði í bænum Paradís í ríkinu norðanverðu. Eldurinn er talinn sá skæðasti í sögu Kaliforníu.
Eldurinn nálgaðist Paradís svo hratt að margir íbúanna 26.000 áttu fótum sínum fjör að launa eftir eina veginum sem liggur úr fjallabænum, að sögn Reuters. Lík nokkurra þeirra sem fórust fundust í eða við bíla sem höfðu brunnið til kaldra kola. Enn er 35 manns saknað þar.
Sunnar í Kaliforníu ógnar Woolsey-eldurinn íbúðarhúsum í Malibú. Um 250.000 íbúum svæðisins var skipað að flýja. Tvö lík hafa fundist þar en ekki er enn ljóst hvort fólkið hafi látist af völdum eldsins eða af öðrum orsökum.

Hótaði að svipta Kaliforníu alríkisfé vegna eldanna
Þrátt fyrir mannskaðann og eyðilegginguna hafði Donald Trump forseti ekkert tjáð sig um kjarreldana fyrir utan tíst þar sem hann hótaði yfirvöldum í Kaliforníu að alríkisstjórnin myndi hætta að veita þeim fé ef þau gerðu ekki breytingar á stýringu á skóglendi sem forsetinn telur ranglega að sé orsök eldanna.Það var ekki fyrr en nú í kvöld sem forsetinn tísti um ástandið í Kaliforníu, viðurkenndi mannskaðann og sagði „hjörtu okkar með þeim sem berjast við eldana“.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Trump kennir „lélegri stjórnun skóga“ um elda sem brenna í Kaliforníu. Sú skýring virðist þó ekki eiga við rök að styðjast. Eldarnir nú brenna ekki í skóglendi heldur kjarri. Eldsmaturinn er þurrt gras þar sem aðeins nokkur tré eru á stangli, að því er segir í frétt Los Angeles Times.
Yfirvöld í Kaliforníu segja að hnattræn hlýnun hafi magnað upp þurrka sem búa til mat fyrir kjarr- og skógarelda sem blossa reglulega upp, að sögn Washington Post.

Hafnar hann því algerlega að stefna ríkisins um grisjun skóga séu orsök kjarreldanna nú og segir það „hættulega“ rangfærslu hjá forsetanum. Í raun kvikni eldarnir ekki aðeins í skóglendi heldur á þéttbýlum svæðum og ökrum af völdum uppþornaðs gróðurs, sterkra vinda, lágs rakastigs og landfræðilegra þátta.
Þar fyrir utan stýri alríkisstjórnin sem Trump fer fyrir um 60% af öllu skóglendi í Kaliforníu. Það sé alríkisstjórnin sem hafi kosið að leggja ekki fé í að stýra skógum í Kaliforníu, ekki ríkisyfirvöld.
„Á þessum örvæntingafullu tímum hvetjum við forsetann til þess að bjóða fram stuðning í orði og æði frekar en ásakanir og álasanir,“ segir Brian Rice, forseti slökkviliðsmannanna.
In an absolutely scathing statement, California Professional Firefighters President Brian Rice blasts President Trump's comments on the California fires: pic.twitter.com/Tre3rC2Suw
— Jose A. Del Real (@jdelreal) November 10, 2018