Handbolti

Gulli: Ég vil helst ekki tapa leik á Akureyri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Valsmenn hafa sótt fjögur stig norður í vetur.
Valsmenn hafa sótt fjögur stig norður í vetur. vísir/vilhelm
Guðlaugur Arnarsson, annar af þjálfurum Vals, var sigurreifur í leikslok í KA-heimilinu í kvöld eftir tveggja marka sigur á KA í Olís-deild karla.

„Virkilega ánægður með að vinna leikinn. Við erum virkilega þakklátir fyrir þessi tvö stig á erfiðum útivelli í frábærri stemningu á móti góðu KA-liði.“

„KA-menn byrjuðu leikinn mjög vel. Voru að spila sína 6-0 vörn vel og Jovan var að verja mjög vel, bæði úr opnum færum og utan af velli. Það var að gera okkur mjög erfitt fyrir. Þess vegna náðu þeir að hanga inn í leiknum. Þetta var barátta tveggja varna,“ segir Guðlaugur.

Valur hefur unnið öll landsbyggðarliðin á útivelli í vetur, það er ÍBV, Akureyri og KA. Guðlaugur sjálfur af landsbyggðinni, sér hann um að brýna strákana fyrir ferðalögin úr borginni?

„Já klárlega. Sérstaklega hérna á Akureyri. Ég vil helst ekki tapa leik á Akureyri. Það er alltaf gott að koma norður,“ sagði Gulli sem lék með sameinuðu liði Akureyrar fyrir nokkrum árum við góðan orðstír.

Valsarar sitja í 3.sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Hauka og kveðst Guðlaugur ánægður með þróunina í leik liðsins.

„Við erum mjög ánægðir með stígandann í liðinu hjá okkur þannig séð. Sóknarleikurinn er aðeins undir pari, við þurfum að bæta hann en það er eitthvað sem við erum að vinna í á æfingum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×