Annie Lööf, formaður sænska Miðflokksins, segist hafa gefist upp í tilraunum sínum að mynda nýja ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta sænska þingsins. Lööf greindi frá þessu í morgun eftir fund sinn með forseta sænska þingsins.
Á fréttamannafundi sagði hún það tilgangslaust að biðja um lengri tíma til viðræðna, og það sé undir þingforsetanum Andreas Norlén að ákveða næstu skref.
Norlén veitti Lööf umboð til stjórnarmyndunar fyrir viku þar sem hann gaf henni vikufrest með möguleika á einnar viku framlengingu.
Lööf sagðist hafa kannað möguleikann á þremur ólíkum stjórnarmynstrum. Sagðist hún hafa lagt mesta áherslu stjórn borgaralegu flokkanna fjögurra, auk Græningja, sem myndi þá njóta stuðnings Jafnaðarmanna. Þá kannaði hún möguleikann á samsteypustjórn borgaralegu flokkanna og Jafnaðarmanna, og loks stjórn Miðflokksins og Frjálslyndra. Enginn möguleikinn hafi náð nægum hljómgrunni.
Snúin staða
Kosningar fóru fram í Svíþjóð þann 9. september síðastliðinn og hefur ekkert gengið að mynda nýja stjórn. Hefur bæði þeim Ulf Kristersson, formanni hægriflokksins Moderaterna, og Stefan Löfven, formanni Jafnaðarmannaflokksins og starfandi forsætisráðherra, mistekist að mynda starfhæfa stjórn.
Afar snúin staða er á sænska þinginu eftir kosningarnar sem fram fóru 9. september síðastliðinn. Rauðgrænu flokkarnir náðu 144 þingsætum, borgaralegu flokkarnir 143 og Svíþjóðardemókratar 62.
Takist sænska þinginu ekki að samþykkja tillögu þingforseta um nýjan forsætisráðherra í fjórum tilraunum þarf að boða til nýrra kosninga. Fyrr í mánuðinum greiddi þingið atkvæði um Kristersson sem nýjan forsætisráðherra, en var honum hafnað. Hann sagðist vilja mynda minnihlutastjórn Moderaterna og Kristilegra demókrata.
Annie Lööf gefst upp

Tengdar fréttir

Annie Lööf fær umboð til stjórnarmyndunar
Formaður Miðflokksins í Svíþjóð, fékk í dag umboð til stjórnarmyndunar. Hún hefur fengið til þess viku með möguleika á framlengingu.

Hringekjan byrjar aftur eftir að þingið hafnaði Kristersson
Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, mun aftur þurfa að setjast niður með leiðtogum sænsku stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á þingi til að ræða um möguleika á myndun nýrrar ríkisstjórnar.