Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Akureyri 22-22 | Akureyringar köstuðu frá sér sigrinum

Þórir Oddssons í Austurbergi skrifar
Sturla Ásgeirsson skoraði jöfnunarmark ÍR úr vítakasti. Hér er honum fagnað af samherjum sínum eftir leik.
Sturla Ásgeirsson skoraði jöfnunarmark ÍR úr vítakasti. Hér er honum fagnað af samherjum sínum eftir leik. vísir/bára
ÍR-ingar sluppu með skrekkinn þegar þeir tóku á móti nýliðum Akureyringa á heimavelli sínum í Austurbergi í dag. Þeir náðu að vinna upp tveggja marka forystu gestanna á lokamínútu leiksins.

Eftir góðan fyrri hálfleik heimamanna tóku Akureyringar völdin um miðjan síðari hálfleik og virtust á góðri leið með að sigla sigrinum í höfn. Norðamenn voru í sókn þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka og með tveggja marka forystu þar að auki.

Stephen Nielsen varði þá frá Ihor Kopyshynskyi. Arnar Freyr Guðmundsson var fljótur að skora með langskoti fyrir ÍR en samt voru Akureyringar með pálmann í höndunum. En gestirnir fóru illa að ráði sínu, tóku erfitt skot í lokasókn sinni og skildu eftir nokkrar sekúndur á klukkunni.

ÍR-ingar létu ekki bjóða sér það tvisvar, brunuðu fram í sókn og komu boltanum út í horn á Elías Bóasson. Þar gerði Brynjar Hólm Grétarsson mistök er hann braut á Elíasi og fengu ÍR-ingar því víti rétt áður en leiktíminn rann út.

Sturla Ásgeirsson skoraði úr vítinu og þar við sat. Þessi góði síðari hálfleikur hjá Akureyri skilaði því aðeins einu stigi á sterkum útivelli Breiðhyltinga. Stigið gæti þó reynst dýrmætt í harðri botnbaráttu deildarinnar.

Af hverju varð jafntefli?

Akureyringar köstuðu sigrinum frá sér. Það á varla að vera hægt að glopra niður tveggja marka forystu þegar þú ert með boltann í sókn og ein og hálf mínúta til leiksloka. Þetta verður að skrifast á algeran klaufaskap nýliðanna frá Akureyri. Stigið var vissulega dýrmætt fyrir Akureyri, en glataða stigið gæti líka reynst dýrmætt.

Hverjir stóðu upp úr?

Stephen Nielsen var besti leikmaður ÍR og varði átján skot. Sérstkaklega var hann öflugur í fyrri hálfleik þegar hann lokaði markinu. Það áttu ÍR-ingar að nýta sér miklu betur en þeir gerðu. Þriggja marka forysta ÍR í hálfleik hefði auðveldlega getað verið mun meiri.

Leonid Mykhailiutenko var sá eini sem fann leiðina fram hjá Nielsen í fyrri hálfleik og hann átti fínan dag. Marius Aleksejev varði svo mikilvæg skot fyrir Akureyringa í síðari hálfleik. Hjá ÍR var Arnar Freyr Guðmundsson markahæstur með sjö mörk.

Hvað gerist næst?

Akureyri mætir erkifjendum sínum í KA í Akureyrarslag um næstu helgi. ÍR-ingar eiga erfiðan útileik gegn Selfyssingum.

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.Vísir/Bára
Sverre: Svona er boltinn

Sverre Andreas Jakobsson, annar þjálfari Akureyrar, var vitanlega svekktur með að hafa misst annað stigið sem í boði var í dag.

„Ég er samt ánægður með margt hjá strákunum. En miðað við þá stöðu sem við vorum í áttum við að klára þetta. En svona er boltinn, þetta er fljótt að gerast,“ sagði Sverre sem vildi ekki tjá sig um lokasókn Akureyrar í leiknum.

„Ég vil ekki beina athyglinni að ákveðnum leikmönnum. Ég tek stigið og verð ánægður með það,“ sagði Sverre.

Akureyringar hafa oft verið gagnrýndir fyrir að spila illa í síðari hálfleik en annað hefur verið á teningnum síðustu tvo leiki. Um síðustu helgi unnu Akureyringar góðan sigur á FH eftir sterka frammistöðu í síðari hálfleik.

„Þetta eru viljugir strákar sem eru að læra. Þetta er frábær hópur og strákarnir leggja mikið á sig. Við hefðum getað náð í tvö stig hér í dag ef við hefðum verið aðeins skynsamari í lokin.“

Arnar Freyr í leiknum í dag.Vísir/Bára
Arnar Freyr: Sóknarleikurinn flatur

Arnar Freyr Guðmundsson var markahæstur hjá ÍR í dag en Björgvin Þór Hólmgeirsson var ekki í liði Breiðhyltinga í dag vegna leikbanns.

„Ég er sáttur við stigið úr því sem komið var en fyrirfram kom ekkert annað til greina en að vinna leikinn,“ sagði hann.

„Sóknarleikurinn var flatur í seinni hálfleik. Við stöðnuðum og það hægðist mjög mikið á okkur. Þetta var lélegt, því miður. Við vorum fínir í vörn í dag en það var ekki nóg.“

Hann hefur þó ekki áhyggjur en í síðustu umferð tapaði ÍR fyrir Stjörnunni. „Við höldum ótrauðir áfram og setjum hausinn upp.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira