Erlent

Comey lét Trump og Repúblikana heyra það

Samúel Karl Ólason skrifar
James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI.
James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI. AP/J. Scott Applewhite
James Comey, fyrrverandi yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, sendi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Repúblikönum á þingi tóninn í kvöld. Það gerði Comey eftir að hann var á lokuðum nefndarfundi þar sem þingmenn spurðu hann út í tölvupósta Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, Steele-skýrsluna svokölluðu, rússarannsóknina og fleiri málefni, sem Comey sagði í rauninni ekki skipta máli.

„Á meðan er forseti Bandaríkjanna að ljúga um FBI, ráðast gegn FBI og ráðast gegn réttarríkinu. Hvernig heldur þetta einhverju vatni? Repúblikanar skildu áður að aðgerðir forseta skiptu máli, orð forseta skiptu máli, réttarríkið skiptir máli og sannleikurinn skiptir máli. Hvar eru þessir Repúblikanar í dag?“ spurði Comey.

Áðurnefndur nefndarfundur tók rúmar fimm klukkustundir. Samkvæmt heimildum CNN varði Comey FBI gegn ásökunum þingamanna Repúblikanaflokksins. Hann sagði að það hefði verið rétt ákvörðun að láta ekki undan þrýstingi frá Hvíta húsinu og tilkynna ekki opinberlega að Trump sjálfur væri ekki til rannsóknar.

Comey sagðist ekki hafa viljað lýsa því yfir þar sem hann taldi mögulegt að það gæti breyst og sagði að miðað við þær fréttir sem hann hefði séð undanfarið hefði það breyst og Trump ­sjálfur væri nú til rannsóknar hjá FBI.



„Einhver verður að koma FBI til varnar,“ sagði Comey eftir blaðamannafundinn. „Fólk sem veit betur, þar á meðal Repúblikanar á þessu þingi, verður að hafa hugrekki til að standa upp og segja sannleikann. Að láta ekki undan illgjörnum tístum og ótta við stuðningsmenn. Sannleikurinn er til en þeir segja hann ekki. Þögn þeirra er skammarleg.“

Comey beindi gagnrýni sinni einnig að þeim þingmönnum Repúblikanaflokksins sem hafa ákveðið að hætta.

„Á einhverjum tímapunkti verður einhver að standa upp og takast á við óttan við Fox News, óttann við stuðningsmennina, óttann við illgjörn tíst og standa upp fyrir gildum þessa lands. Ekki bara lauma sér á eftirlaun, heldur standa upp og segja sannleikann.“

Eftir fundinn spurði fréttakona Fox News hvort Comey sjálfur bæri einhverja ábyrgð á því að álit íbúa Bandaríkjanna á Alríkislögreglunni hafi versnað að undanförnu. Svarið var afdráttarlaust.

„Nei. Orðspor FBI hefur beðið hnekki vegna þess að forseti Bandaríkjanna og félagar hans hafa logið stanslaust um stofnunina. Vegna þeirra lyga trúir mikið af góðu fólki, sem horfir á þína sjónvarpsstöð, þeirri vitleysu. Það er sorglegt. Það mun ekki vara að eilífu en sá skaði kemur mér ekkert við.“

Þetta svar má sjá undir lok þessa myndbands.


Tengdar fréttir

Comey ætlar að berjast fyrir opnum nefndarfundi

James Comey, fyrrverandi yfirmaðu Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI), segist hafa fengið stefnu frá þingmönnum Repúblikanaflokksins í dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×