Töluverð örtröð og óróleiki skapaðist í stórversluninni Costco í Kauptúni í gær þegar kassakerfi verslunarinnar hrundi í hálfa aðra klukkustund. Forsprakki Facebook-hópsins Costco-Gleði, Engilbert Arnar Friðþjófsson, var staddur á matsölustaðnum í versluninni og fylgdist með gangi mála en langar raðir mynduðust í búðinni.
„Þau leystu þetta bara mjög vel og voru mjög almennileg. Þau voru að gefa fólki kökur, djús, Prins Póló og möffins,“ segir Engilbert í samtali við Fréttablaðið.
Þegar verst lét höfðu myndast biðraðir sem þveruðu vöruhúsið stóra og náðu frá kössunum aftur að kælunum í hinum endanum. Að sögn viðstaddra ákváðu margir að hverfa frá meðan kerfið lá niðri. Óljóst er hvað olli biluninni en Fréttablaðið náði ekki í talsmenn Costco.

